Fótbolti

Forseti félagsins og fjórir leikmenn fórust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Slökkviliðsmenn að störfum við slysstaðinn.
Slökkviliðsmenn að störfum við slysstaðinn. Getty/Tocantins State Firefighters

Brasilíska fótboltafélagið Palmas varð fyrir miklu áfalli í gær þegar flugvél á vegum félagsins fórst.

Í þessari lítil flugvél voru forseti brasilíska félagsins sem og fjórir leikmenn liðsins.

Flugvélin fórst í flugtaki en hún var á leiðinni með farþega sína á bikarleik félagsins. Stefnan hafði verið sett á Goiania sem er í um 800 kílómetra fjarlægð. Flugvélin komst þó ekki lengra en út á enda flugbrautarinnar.

Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA er meðal þeirra sem hafa sent aðstandendum samúðarkveðjur.

Palmas, sem spilar í brasilísku D-deildinni, átti að mæta Vila Nova í sextán liða úrslitum Copa Verde bikarsins í dag. Keppnin er fyrir önnur lið en stóru liðin í suður og norðaustur Brasilíu.

Forsetinn hét Lucas Meira en nöfn leikmannanna voru Lucas Praxedes, Guilherme Noe, Ranule and Marcus Molinari. Flugmaður vélarinnar, Wagner, fórst líka.

Ranule var markvörður, Praxedes og Noe voru varnarmenn og Molinari spilaði á miðju liðsins.

Það eru aðeins fimm ár síðan að brasilíska fótboltaliðið Chapecoense lenti í flugslysi þar sem nær allir leikmenn liðsins fórust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×