Harriet Tubman var pólitískur aðgerðasinni og frelsishetja sem barðist fyrir afnámi þrælahalds í Bandaríkjunum. Sjálfri tókst henni að flýja undan ánauð þrælahalds og í framhaldinu tók hún þátt í þrettán björgunaraðgerðum þar sem tókst að frelsa sjötíu þræla í Maryland-ríki. Tubman lést árið 1913.
Jen Psaki, talskona Hvíta hússins, greindi frá þessu í kvöld en ákvörðun var tekin um það árið 2016, í stjórnartíð Jacov Lew í embætti fjármálaráðherra í Obama-stjórninni, að mynd af Tugman skyldi prentuð á tuttugu dollara seðla í stað Andrew Jackson sem nú prýðir seðilinn. Donald Trump lagðist aftur á móti gegn ákvörðuninni og kom í veg fyrir að þau áform yrðu að veruleika.

Það var Steven Mnuchin, fjármálaráðherra í Trump-stjórninni, sem stoppaði það af en hann hélt því fram að mikilvægara væri að auka við öryggisþætti seðlanna. Seðlar með nýju andliti gætu því ekki orðið að veruleika fyrr en 2028 og að það yrði þá verkefni fjármálaráðherra þess tíma að ákveða hver hvort skipta ætti út Jackson að því er fram kemur í umfjöllun New York Times.
Fjármálaráðuneytið, þar sem Janet L. Yellen gegnir nú embætti fjármálaráðherra, hyggst þó hraða þessu ferli. „Fjármálaráðuneytið er að stíga skref til að reyna aftur að setja Harriet Tubman framan á 20 dollara seðlana,“ sagði Psaki. „Það er mikilvægt að peningarnir okkar endurspegli söguna og fjölbreytileika landsins okkar.“
Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu liggur þó ekki fyrir hvenær hönnun nýs seðils verði hugsanlega tilbúin. Samkvæmt fyrri ákvörðun Lew frá árinu 2016 stóð til að hönnun nýs tuttugu dollara seðils yrði tilbúin árið 2020 og hún yrði kynnt á aldarafmæli 19. greinar stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem tryggði konum kosningarétt.