Enski boltinn

Barcelona skuldar Liverpool ennþá meira en sex milljarða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho varð að stórstjörnu hjá Liverpool en hann hefur ekki náð sömu hæðum hjá Barcelona.
Philippe Coutinho varð að stórstjörnu hjá Liverpool en hann hefur ekki náð sömu hæðum hjá Barcelona. Getty/ Andrew Powell

Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho er fyrir löngu kominn í hóp verstu kaupa fótboltasögunnar. Hann hefur lítið hjálpað Börsungum inn á vellinum og félagið er enn langt frá því að hafa gert upp við hans gömlu eigendur.

Nýjasti ársreikningur stórliðsins Barcelona sýnir það svart á hvítu hversu alvarlega staðan er hjá spænska félaginu.

Barcelona skuldar 1,2 milljarða evra eða 189 milljarða íslenskra króna sem er engin smá upphæð.

Kórónuveiran hefur auðvitað haft mikil á rekstur Barcelona og þar hefur félagið orðið af miklu tekjum.

Barcelona er með mjög háan launakostnað og þá skulda þeir mikið fyrir leikmenn sem félagið hefur keypt á undanförnum árum.

Barcelona er nefnilega í skuld við alls nítján mismunandi félög vegna leikmannakaupa og skuldar enn meira en 174 milljónir punda fyrir leikmenn sem Barcelona hefur þegar keypt.

Liverpool er þar efst á blaði en Börsungar eiga enn eftir að borga Liverpool 40 milljónir evra eða meira en sex milljarða króna. Þetta snýst um kaupin á Philippe Coutinho sem Barcelona var tilbúið að borga Liverpool 142 milljónir punda fyrir.

Barcelona borgaði 105 milljónir punda strax en fékk síðan að borga afganginn í afborgunum.

Coutinho náði sér aldrei á strik hjá Barcelona, félagið lánaði hann til Bayern München, en hann kom aftur til Barcelona fyrir núverandi tímabil. Það breytir ekki því að Barcelona er enn að borga fyrir hann og er langt frá því að geta gert upp við Liverpool.

Barcelona skuldar líka Ajax fyrir kaupin á Frenkie de Jong og þurfa að borga sextán milljónir evra, 2,5 milljarða króna, í næstu afborgun. Barca þarf líka að borga franska félaginu Bordeaux tíu milljónir evra fyrir Malcom fyrir lok júní.

Staðan er svo slæm að Barcelona þarf að leita á náðir bankanna til að fá að fresta gjalddögum sínum til þess hreinlega að koma í veg fyrir gjaldþrot.

Barcelona hefur látið leikmenn fara eins og Nelson Semedo, Arthur, Ivan Rakitic og Luis Suarez, sem hefur lækkað launkostnaðinn. Félagið er hins vegar enn að borga Lionel Messi sín ofurlaun.

Það hefði því ekki verið vitlaust fyrir félagið að selja Lionel Messi síðasta sumar til að fá bæði pening inn sem og að sleppa því að borga launin hans.

Augu margra verða á rekstri Barcelona á þessu ári þar sem félagið mun róa lífróður til að bjarga því frá gjaldþroti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×