Í umfjöllun RÚV á síðustu stórmótum karla í handbolta hafa Arnar Pétursson og Logi Geirsson meðal annars gefið sitt álit á frammistöðu íslenska landsliðsins, og sagt sína skoðun á störfum Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara. Þannig var það einnig á HM í Egyptalandi nú. Arnar hefur þó frá sumrinu 2019 einnig verið þjálfari kvennalandsliðs Íslands.
Guðmundur landsliðsþjálfari sendi þeim Loga og Arnari tóninn í viðtali við RÚV bæði eftir tapið gegn Sviss og gegn Frakklandi í síðustu viku.
„Það er algjörlega óþolandi að heyra hvernig sérfræðingar RÚV eru að tjá sig um þetta á niðrandi hátt. Talandi um þetta eftir leikinn á móti Sviss að liðið sé ráðalaust. Þetta eru svo niðrandi ummæli og þetta hefur farið mjög illa í hópinn og mig hvernig þetta hefur verið,“ sagði Guðmundur þjálfari meðal annars.
Arnar sagði þá Loga ekki hafna yfir gagnrýni en sagði: „Ég er hissa á Gumma. Ég er hissa á þessum viðbrögðum og finnst þetta í raun og veru sorglegt.“
Málið verði rætt í stjórn HSÍ
Vísir óskaði eftir viðbrögðum formanns HSÍ við þessari stöðu, að þjálfarar landsliðanna deildu fyrir framan alþjóð:
„Þessi staða er vægast sagt óheppileg. Aftur á móti eru menn aðeins bundnir í verkefnum hjá okkur. Hvað þeir gera utan þess tíma er náttúrulega ekki á okkar forræði,“ sagði Guðmundur, formaður HSÍ.
„Þarna eru menn að segja sínar skoðanir á hlutunum og að sjálfsögðu getur menn þá greint á. Þeir hafa báðir svarað fyrir sig í því,“ sagði Guðmundur.
Aðspurður hvort stjórn HSÍ myndi setja reglur til að koma í veg fyrir að þessi staða kæmi aftur upp svaraði formaðurinn:
„Við eigum eftir að taka það upp og ræða það. Þetta er óheppilegt fyrir okkur og við þurfum að taka til umræðu hvernig við ætlum að vinna úr þessu.“