Viðskipti innlent

Keypti í Högum fyrir 5,75 milljónir þegar hann byrjaði í nýju vinnunni

Eiður Þór Árnason skrifar
Hagar reka meðal annars verslanir undir merkjum Bónuss, Hagkaups og Útilífs, auk þess að eiga Olís.
Hagar reka meðal annars verslanir undir merkjum Bónuss, Hagkaups og Útilífs, auk þess að eiga Olís. Samsett

Magnús Magnússon, sem hóf í dag störf sem framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar hjá Högum, hefur keypt hlutabréf í félaginu fyrir 5,75 milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Samkvæmt henni hefur Magnús fest kaup á 100 þúsund hlutum í Högum á genginu 57,5 krónur á hlut í gegnum félag sitt 2M ehf.

Greint var frá ráðningu hans í síðustu viku en um er að ræða nýja stöðu innan Haga. Mun hann meðal annars bera ábyrgð á stefnumótun og eftirfylgni, viðskiptaþróun og rekstrargreiningum, þar með talið stuðningi við dótturfélög er varðar greiningar og umbótaverkefni.

Þá sagði í tilkynningu frá Högum að lykilverkefni Magnúsar yrði að styðja áframhaldi vinnu við skilgreiningu á áherslum í rekstri og stefnu fyrirtækisins til lengri tíma.

Fyrir ráðninguna hafði Magnús verið ráðgjafi samstæðunnar frá því í sumar en hann hefur starfað sem sjálfstæður ráðgjafi undanfarið ár. Hann var áður hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×