Áhyggjurnar eru ekki að ástæðulausu. K2 er talið eitt hættulegasta fjall heims og var toppað í fyrsta skipti að vetrarlagi á dögunum. Það var markmið Johns Snorra að verða fyrstur á toppinn en takist honum afrekið verður hann á meðal þeirra fyrstu. Hann hefur áður toppað fjallið að sumarlagi.
Greint var frá því fyrr í dag að búlgarskur fjallgöngumaður hefði farist í fjallinu í dag eftir að hafa hrapað. Hann er annar maðurinn sem ferst í göngu á K2 á undanförnum vikukm. Atanas Skatov, 42 ára, var að skipta um reipi þegar hann hrapaði á leið niður í grunnbúðir.
Lína Móey sagðist í Facebook-færslu um hádegisbil að einn göngufélaga Johns Snorra væri kominn aftur niður í grunnbúðir þrjú vegna þess að vandræði hefðu komið upp með súrefniskúta hans.
Að hans sögn hefðu John Snorri og göngufélagar hans Ali og J Pablo frá Chile verið staðsettir í „Bottleneck“, algengustu leiðinni á topp K2, um klukkan sjö að íslenskum tíma í morgun. Þeirra plan hafi verið að dvelja í grunnbúðum fjögur eftir að hafa toppað fjallið.
Lína Móey ræddi við klifurfélaga Johns Snorra sem býr í Ástralíu. Hann sagðist telja að John Snorri muni hafa samband um leið og hann telji sig úr hættu. Þangað til verði hann að einbeita sér að göngunni og öryggi sínu. Þá verði að hafa í huga að rafhlöður endist skemur í miklum kulda sem sé í fjallinu að vetrarlagi.
Klukkan í Pakistan er fimm tímum á undan íslenskum tíma. Því er klukkan nú vel farin að ganga níu að kvöldi til.