Erlent

Skotinn til bana við upptöku Youtube-hrekks

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan í Nashville rannsakar nú hvort banaskotið flokkist sem sjálfsvörn.
Lögreglan í Nashville rannsakar nú hvort banaskotið flokkist sem sjálfsvörn. Getty/Raymond Boyd

Lögreglan í Nashville í Bandaríkjunum hefur til rannsóknar atvik þar sem ungur maður var skotinn til bana við að taka upp hrekk sem til stóð að birta á Youtube. Maðurinn og vinur hans þóttust ætla að ræna annan mann sem hélt að um raunverulegt rán væri að ræða og dró upp byssu.

Hinn 20 ára gamli Timothy Wilks var skotinn til bana á bílastæði við trampólíngarð í Nashville á föstudaginn. Hann var með stóran gervihníf og vinur hans sömuleiðis.

Vinur Wilks sagði að þeir hefðu ætlað að þykjast ræna fólk. Um hrekk væri að ræða sem þeir hefðu ætlað að birta á Youtube. Þegar þeir nálguðust David Starnes Jr. skaut hann Wilks til bana. Hann sagði lögreglu að hann hefði ekki vitað að um gervihnífa væri að ræða og hafi talið sig og aðra í hættu.

Starnes hefur ekki verið handtekinn og samkvæmt Washington Post er lögregla að rannsaka hvort banaskotið flokkist sem sjálfsvörn.

Í frétt BBC segir að ránshrekkir séu temmilega vinsælir á Youtube. Forsvarsmenn myndbandaveitunnar breyttu reglum miðilsins fyrir tveimur árum á þann veg að myndbönd sem þessi séu bönnuð.

Var það gert í kjölfar nokkurra umdeildra atvika. Þar á meðal eftir að tvítug kona skaut kærasta sinn til bana. Þá voru þau að taka myndband þar sem hann hélt á bók og töldu þau að byssukúlan færi ekki í gegnum bókina.

Sjá einnig: Dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir mann­skæðan YouTube-hrekk

Í fyrra voru svo tveir ungir menn ákærðir fyrir bankaránshrekk þeirra. Þá voru þeir að taka upp myndbönd þar sem þeir þóttust vera að ræna banka. Það endaði með því að vegfarendur hringdu á lögregluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×