Viðskipti innlent

Kurr á sveitar­­stjórnar­fundi eftir að fulltrúar Arion banka kynntu skerðingar­á­form

Eiður Þór Árnason skrifar
Fulltrúar Arion banka kynntu hugmyndir um skerðingu á bankaþjónustu á Blönduósi á fundi sveitarstjórnar í gær.
Fulltrúar Arion banka kynntu hugmyndir um skerðingu á bankaþjónustu á Blönduósi á fundi sveitarstjórnar í gær. Vísir/Vilhelm

Sveitarstjórn Blönduósbæjar mótmælir harðlega fyrirhuguðum áformum Arion banka um að loka útibúi sínu í bænum og hefur falið sveitarstjóra að endurskoða framtíð bankaviðskipta sveitarfélagsins.

Í fundargerð sveitarstjórnar segir að þjónusta bankans hafi verið skert verulega á undanförnum mánuðum og að sú þróun hafi byrjað áður en heimsfaraldurinn kom til. Fulltrúar Arion banka kynntu áformaðar breytingar á fundi sveitarstjórnar í gær.

„Sveitarstjórn felur sveitarstjóra, í samráði við byggðaráð að kanna og koma með tillögur um frekari viðbrögð við boðaðri lokun bankans, með tilliti til framtíðar bankaviðskipta sveitarfélagsins.“

Er þetta í ekki í fyrsta skipti sem sveitarstjórn gerir þjónustuskerðingu Arion banka að umtalsefni sínu en í maí á síðasta ári hótaði Hveragerðisbær að færa bankaviðskipti frá bankanum eftir að hann ákvað að loka útibúi sínu í bænum.

Þær yfirlýsingar virtust hafa lítil áhrif á fyrirætlanir bankans sem sameinaði útibúið öðru útibúi á Selfossi og úr varð að enginn banki er nú með starfsemi í Hveragerði. Síðar fékk bæjarstjórn þau svör frá hinum viðskiptabönkunum tveimur að hvorugur þeirra hafi áhuga á því að opna útibú í bænum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×