Sport

Einn af betri varnar­mönnum NFL-deildarinnar samnings­laus

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
J.J. Watt hefur verið leystur undan samningi hjá Houston Texans.
J.J. Watt hefur verið leystur undan samningi hjá Houston Texans. Justin Casterline/Getty Images

J.J. Watt hefur verið leystur undan samningi hjá Houston Texans í NFL-deildinni. Watt hefur þrívegis verið valinn besti varnarmaður deildarinnar og því mætti ætla að mörg liði verði á eftir þessum 31 árs gamla leikmanni.

Watt eyddi alls tíu árum hjá Texans og verður alltaf í umræðunni um bestu leikmenn í sögu félagsins. Nú fær Watt að velja sér hvað tekur við en mörg lið eru á eftir undirskrift hans.

The Athletic fór yfir hvaða lið koma helst til greina hjá Watt fyrir komandi tímabil.

1. Green Bay Packers

Watt ólst upp rétt hjá Green Bay og var í háskólanum í Wisconsin á sínum tíma. Watt gæti verið síðasta púslið sem Packers þurfa til að loksins landa Lombardi-bikarnum. Þeir fóru alla leið í undanúrslit í ár en töpuðu fyrir Tom Brady og félögum í Tampa Bay.

2. Pittsburgh Steelers

J.J. og yngri bróður hans T.J. hefur dreymt um að spila saman lengi. Nú loksins er alvöru möguleiki á að það geti gerst.

3. Buffalo Bills

Buffalo þarf sterkari vörn en Kansas City Chiefs fór ítrekað illa með þá á nýafstaðinni leiktíð. Leikmaður á borð við J.J. gæti leyst þau vandræði að mörgu leyti.

4. Baltimore Ravens

Ravens eru duglegir að bæta við sig leikmönnum sem eru runnir út á samning. Þeir vilja spila góða vörn og leikmaður á borð við Watt gæti hjálpað liðinu að fara enn lengra.

Fyrir utan þessi fjögur lið eru önnur sex einnig nefnd til sögunnar. Það eru Los Angeles Rams, Kansas City Chiefs, Tampa Bay Buccaneers, Seattle Seahawks, Tennessee Titans og Las Vegas Raiders.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×