Að sögn Andrew Pollard, sem fer fyrir bóluefnarannsóknum AstraZeneca, er mikilvægt að komast að því hvort bólusetning getur gagnast börnum, jafnvel þótt flest börn virðist ekki veikjast alvarlega af völdum Covid-19.
Fyrr í vikunni sagði aðstoðarlandlæknir Bretlands mögulegt að fyrir árslok yrðu komin á markað Covid-19 bóluefni fyrir börn.
Royal College of Paediatrics and Child Health hefur greint frá því að vísbendingar séu um að Covid-19 geti valdið alvarlegum veikindum og dauða meðal barna. Það sé hins vegar sjaldgæft.
Þá bendi ýmislegt til þess að börn smitist síður af SARS-CoV-2, veirunni sem veldur Covid-19.
Samkvæmt University of Oxford, sem þróaði umrætt bóluefni í samvinnu við AstraZeneca, hafa rannsóknir þegar hafist á áhrifum efnisins í aldurshópnum sextán til sautján ára.
Forsvarsmenn verkefnisins segja mikilvægt að kanna áhrif bólusetninga á börn, þar sem þau hafi orðið fyrir verulegum óbeinum áhrifum af völdum faraldursins.