Handbolti

Síðasta sambærilega dæmið frá 2007 og þá stóðu úrslitin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarnan er í 4. sæti Olís-deildar kvenna með tíu stig eftir níu leiki.
Stjarnan er í 4. sæti Olís-deildar kvenna með tíu stig eftir níu leiki. vísir/vilhelm

Kæra handknattleiksdeildar Stjörnunnar á úrslitum í leik gegn KA/Þór í Olís-deild kvenna á laugardaginn er komin inn á borð dómstóls HSÍ. KA/Þór vann leikinn, 26-27, en mistök á ritaraborði urðu til þess að eitt marka liðsins var oftalið. Síðasta sambærilega dæmið um að úrslit hafi verið kærð vegna rangrar skráningar marka er frá 2007.

KA/Þór tyllti sér á topp Olís-deildar kvenna með sigrinum á Stjörnunni á laugardaginn. Leikurinn endaði 26-27 en KA/Þór skoraði aðeins 26 mörk. Mistök voru gerð á ritaraborðinu í fyrri hálfleik þar sem skráð voru átján mörk en ekki sautján á KA/Þór. Handbolti.is greindi fyrst frá.

Þegar Thelma Sif Sófusdóttir minnkaði muninn fyrir Stjörnuna í 12-17 var markið skráð á KA/Þór á leikklukkuna, 11-18. Stjarnan fékk seinna tólfta markið skráð á sig en það gleymdist hins vegar að taka átjánda markið af KA/Þór. Staðan í hálfleik var því 12-18 en átti að vera 12-17.

Í gær barst fréttatilkynning frá Stjörnunnar um að stjórn handknattleiksdeildar félagsins hefði kært framkvæmd leiksins og farið fram á að úrslitunum yrði breytt í jafntefli, 26-26.

„Málið var kært til dómstóls HSÍ og aðilar að því fyrir Stjörnuna eru HSÍ og KA/Þór. Þeim aðilum er gefinn frestur til seinni parts vikunnar til að skila inn greinargerð. Svo tekur dómstóllinn málið fyrir,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við Vísi í dag. 

Hann vonast til að niðurstaða liggi fyrir í næstu viku en vill ekki spá fyrir um hana, hvort úrslitunum verði breytt eða þau látin standa.

„Ég get ekkert spáð fyrir um það. Það er dómstólsins að fjalla um og komast að niðurstöðu,“ sagði Róbert.

Úrslit stóðu þrátt fyrir tvískráð mark

Hann segir að síðasta sambærilega fordæmið sé frá því fyrir tæpum þrettán árum. Þá kærðu Haukar úrslit í leik gegn Fram í úrslitum deildabikars HSÍ 29. desember 2007. Fram vann leikinn, 30-28, en mark var tvískráð á liðið í upphafi leiks.

Haukar töldu að þessi mistök hefðu haft afgerandi áhrif á þróun leiksins og bein áhrif á úrslit hans. Þeir fóru fram á að úrslitin yrðu ógild og leikurinn spilaður aftur.

Í dómnum, sem er frá 11. mars 2008, segir að mistök hafi verið gerð við skráningu marka en mistök af þessu tagi væru hluti af leiknum og aldrei hægt að komast hjá þeim. Beiðni Hauka var því hafnað og úrslitin stóðu.

Í niðurstöðukafla dómsins segir:

Ljóst er að mistök voru gerð við skráningu marka í úrslitaleik deildarbikarkeppni HSÍ sem leikinn var þann 29.12.07, með þeim hætti að mark var tvískráð á Fram í upphafi leiks, ca. á 10 – 12 mínútu fyrri hálfleiks. 

Skv. grein 17.9 í leikreglum HSÍ eru dómarar ábyrgir fyrir skráningu marka. Það er niðurstaða dómsins að mistökin séu á ábyrgð dómara leiksins, og séu því hluti af leiknum í heild. Ekki sé hægt að skilja á milli dómara og tímavarða, þannig að líta megi þannig á að mistök tímavarða við skráningu geti valdið því að úrslit leiks verði ógidlanleg. Mistök af þessu tagi eru hluti leiksins, og á ábyrgð dómara. Aldrei er hægt að komast hjá mannlegum mistökum í leikjum, og ekki er hægt að flokka mistök sérstaklega eftir tegund eða eðli, þannig að ein tegund mistaka geti valdið því að úrslit 3 3 leiks geti verið ógildanleg, frekar en önnur mistök sem dómarar gera. Ákvörðun dómara í hverjum leik eru endanleg og ekki kæranleg, af hvaða toga sem þau mistök geta verið. Mistök dómara geta að sjálfsögðu haft áhrif á þróun leikja, á hvaða tíma leiks sem er. Mistök dómara, sem og leikmanna og annarra sem að leik koma eru hluti leiksins, og hafa því öll atvik leiks áhrif á þróun og úrslit leikja. 

Það er því mat dómsins að hafna beri kröfu Hauka um að úrslitaleikur karla í deildarbikarkeppni HSÍ sem leikinn var þann 29.12.07 verði endurleikinn og að úrslitin verði ógilt.

Lesa má dóminn með því að smella hér.

Mótanefnd skoðar framkvæmdina

Róbert segir liggja fyrir að framkvæmd leiksins hafi ekki verið eins og best verður á kosið. Það sé hins vegar mál mótanefndar HSÍ.

„Það er ljóst að framkvæmdin var ekki á þann hátt sem við viljum sjá. Klukkan bilaði og fleira í þessum leik. Það er í raun mál sem mótanefnd tekur fyrir og fjallar um, framkvæmdina sem slíka. En hvað leikniðurstöðuna varðar er það mál hjá dómstólnum,“ sagði Róbert.

Enginn eftirlitsmaður

Ekki er eftirlitsmaður á öllum leikjum í Olís-deildum karla og kvenna og sú var raunin í leiknum í Garðabænum á laugardaginn.

„Það eru ekki eftirlitsdómarar á öllum leikjum og félögin hafa frekar hvatt til þess að þeim yrði fækkað en fjölgað,“ sagði Róbert og bætti við að ólíklegra væri að mistökin á ritaraborðinu á laugardaginn hefðu átt sér stað ef eftirlitsmaður hefði verið á leiknum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×