Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en farið var fram á gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna í þágu rannsóknar á manndrápi sem átti sér stað í Rauðagerði í Reykjavík um síðustu helgi. Minnst einn mannanna hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurð sinn til Landsréttar og neitar allri aðild að málinu.
Mennirnir þrír voru leiddir fyrir dómara í kvöld, einn af öðrum, og var lögregla með nokkurn viðbúnað við Héraðsdóm Reykjavíkur á meðan því stóð. Mennirnir voru handteknir í gær í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu vegna málsins.
Rannsaka hvort árásin tengist mögulega uppgjöri í undirheimum
Einn maður til viðbótar er í gæsluvarðhaldi í tengslum við manndrápsmálið en hann var handtekinn strax á laugardagskvöld. Sá var úrskurðaður í gæsluvarðhald á sunnudagskvöld til föstudagsins 19. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Gerð var húsleit á nokkrum stöðum í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var meðal annars ráðist í aðgerðir á Suðurlandi.
Lögregla hefur rætt við fjölda vitna við rannsóknina sem beinist meðal annars að því hvort árásin tengist uppgjöri í undirheimunum í tengslum við skipulagða brotastarfsemi.
Lögðu hald á nokkra muni
Sérsveit ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti aðstoðuðu við aðgerðirnar í gær. Maðurinn sem skotinn var til bana í Rauðagerði rétt fyrir miðnætti á laugardagskvöld var frá Albaníu en bjó hér á landi með íslenskri eiginkonu sinni. Saman eiga þau ungt barn og áttu von á öðru barni.
Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að lagt hafi verið hald á nokkra muni við rannsóknina. Hann vildi ekki upplýsa hvort skotvopnið sem notað var til að bana karlmanninum sé þeirra á meðal.
Fréttin hefur verið' uppfærð.