Flugvirkjar hafa nú verið í verkfalli frá 5. nóvember á síðasta ári. Að sögn Guðmundar Úlfars, í samtali við mbl.is, er niðurstaðan sú að kjarasamningur flugvirkja Gæslunnar til næstu tveggja ára byggi á kröfugerð ríkisins frá í október síðastliðins. Hann er afar ósáttur og segir að í engu hafi verið tekið tillit til sjónarmiða flugvirkja sem vildu lengri samning.
„Flugvirkjar gæslunnar eru að verða fyrir launatapi með þessum samning sem hleypur á tugum þúsunda,“ heldur Guðmundur fram í samtali við mbl.is en Vísi tókst ekki að ná tali af honum nú síðdegis þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Gengið er út frá kjarahækkunum á grunnkaupi en þær ganga svo til baka á öðrum sviðum og megn sérákvæða er numið á brott.
„Þetta er verra en við gátum átt von á verst,“
segir Guðmundur í samtali við Morgunblaðsmenn og er ómyrkur í máli.
Gerðardómur er ítarlegur og eru þar ýmis samingaákvæði rakin og svo útlistun á því hvað samningurinn felur í sér. Kjarasamingurinn gildir frá 1. febrúar 2021 til 31. mars 2023 og fellur þá úr gildi án frekari fyrirvara.