Viðskipti innlent

Þarf að greiða 35 milljóna sekt fyrir stór­felld skatt­svik

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var einnig dæmdur í sjö mánaða fangelsi, en fullnustu refsingarinnar skal fresta og hún falla niður að tveimur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorð.
Maðurinn var einnig dæmdur í sjö mánaða fangelsi, en fullnustu refsingarinnar skal fresta og hún falla niður að tveimur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorð. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í sjö mánaða fangelsi og greiðslu 35 milljóna króna sektar fyrir stórfelld skattsvik og peningaþvætti.

Fullnustu þess hluta refsingarinnar sem varðar fangelsi skal fresta og hún falla niður að tveimur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorð.

Í ákæru var rakið að maðurinn hafi sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í einkahlutafélagi, sem nú hefur verið afskráð, ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum árið 2016, samtals að fjárhæð um 13 milljónir króna. Þá hafi hann ekki staðið skil á staðgreiðslu félagsins á árunum 2016 og 2017, samtals að fjárhæð rúmlega sjö milljónir króna.

Þá var maðurinn sömuleiðis ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað einkahlutafélaginu ávinnings af umræddum brotum, samtals rúmlega tuttugu milljónir króna, og nýtt ávinninginn í þágu rekstrar félagsins og eftir atvikum í eigin þágu.

Játaði brotin skýlaust

Maðurinn játaði skýlaust brotin sem rakin voru í ákæru. Við ákvörðun refsingar tók dómari tillit til þess að maðurinn hafði ekki áður verið dæmdur til refsingar, til játningar hans og að nokkuð væri um liðið frá því að hann framdi brotin. Þó var einnig horft til þess að brotin námu háum fjárhæðum.

Manninum er gert að greiða 35 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 360 daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×