Innlent

Nokkrum sleppt úr haldi vegna Rauðagerðismálsins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tíu dagar eru liðnir frá morðinu í Rauðagerði.
Tíu dagar eru liðnir frá morðinu í Rauðagerði. Vísir/Vilhelm

Lögregla hyggst sleppa nokkrum sakborningum í Rauðagerðismálinu úr haldi í dag, samkvæmt heimildum fréttastofu. Farið verður fram á farbann yfir mönnunum á meðan rannsókn stendur yfir.

Gæsluvarðhald yfir þremur mönnum rennur út í dag. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins, sagði í samtali við fréttastofu síðdegis í gær að farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir einum þeirra – en heimildir fréttastofu herma að þar sé um að ræða Íslendinginn sem grunaður er um aðild að morðinu.

Lögregla verst allra fregna og segist ætla að senda frá sér yfirlýsingu eftir hádegi, en heimildir herma að þremur mönnum hið minnsta verði sleppt úr haldi í dag. Margeir hefur upplýst um að lögregla telji sig vera með alla sem komu að málinu í haldi og sönnunargögn í málinu séu sterk.

Lögregla hefur farið í húsleit á hátt í þrjátíu stöðum vegna málsins, en Margeir segir að þeim sé lokið í bili. Hann vill ekki upplýsa um hvað bendir til þess að hinn grunaði sé í haldi.

„Það sem bendir til þess eru bara gögn málsins. Ég get ekkert svo sem tjáð mig um það sérstaklega,“ sagði Margeir Sveinsson í samtali við fréttastofu síðdegis í gær. Tilkynningar frá lögreglu er að vænta síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×