Golf

Tiger var með með­vitund en al­var­lega slasaður á báðum fótum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tiger Woods var með meðvitund þegar komið var að honum á slysstað.
Tiger Woods var með meðvitund þegar komið var að honum á slysstað. Harry How/Getty Images

Tiger Woods var með meðvitund er fólk kom að bíl hans eftir skelfilegt bílslys í kvöld. Hann var illa slasaður á báðum fótleggjum segir í frétt Independent um málið.

Samkvæmt lögregluembætti Los Angeles var Tiger í alvarlegu ástandi þegar komið var að honum eftir slysið. Hann gat þó tjáð sig.

Woods ku hafa verið á leiðinni í myndatöku með leikstjórnendum New Orleans Saints og Los Angeles Chargers í NFL-deildinni, þeim Drew Brees og Justin Herbert samkvæmt Fox News.

Samkvæmt Daryl Osby, yfirmanni slökkviliðsins, þurfti bæði klippur og öxi til að ná Tiger út úr bifreið sinni á slysstað. Þá sagði Alex Villanueva, yfirmaður lögreglunnar, að engin ummerki hefðu verið um áfengisneyslu eða vímuefni. Tiger glímdi við verkjalyfjafíkn á árum áður vegna krónískra meiðsla í baki.

Í janúar á þessu ári gekkst hann undir sína fimmtu bakaðgerð, er það ástæða þess að hann hefur ekkert keppt undanfarið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×