Um er að ræða Íslending sem kom til landsins á dögunum, fór í tvöfalda skimun á landamærunum með fimm daga sóttkví á milli líkt og reglur gera ráð fyrir og greindist neikvæður í báðum sýnatökum.
Þegar hann ætlaði síðan að fara úr landi og fór í skimun til að fá PCR-vottorð greindist hann með veiruna. Nú er beðið niðurstöðu mótefnamælingar varðandi það hvort um er að ræða nýja eða gamla sýkingu.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við fréttastofu að það verði fróðlegt að sjá hvort að viðkomandi sé með mótefni og hafi þá sloppið í gegnum landamærin með neikvætt sýni.
Ef hann er hins vegar ekki með mótefni þá sé um að ræða nýtt innanlandssmit. Ef svo sé þurfi að fara vel ofan í það hvar viðkomandi hefur verið undanfarnar tvær vikur og hvar hann hafi þá mögulega smitast.
Einn greindist með virkt smit á landamærunum við fyrri sýnatöku í gær og einn greindist með mótefni. 244 einkennasýni voru tekin innanlands í gær og 600 sýni á landamærunum.
Nýgengi innanlandssmita er nú 0,8 og nýgengi landamærasmita 2,7. Fjórir eru í sóttkví og þrettán manns í einangrun. 894 eru í skimunarsóttkví, sjö eru á sjúkrahúsi og 12.600 manns eru fullbólusettir.
Fréttin hefur verið uppfærð.