Handbolti

Stefán Huldar bestur og tveir KA-menn í úrvalsliði fyrri hlutans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán Huldar Stefánsson hefur reynst Gróttu afar vel.
Stefán Huldar Stefánsson hefur reynst Gróttu afar vel. vísir/vilhelm

Seinni bylgjan verðlaunaði menn fyrir frammistöðuna á fyrri hluta tímabilsins í Olís-deild karla í gær.

Stefán Huldar Stefánsson, markvörður Gróttu, var valinn besti leikmaður fyrri hlutans. Lánsmaðurinn frá Haukum hefur verið frábær í marki nýliðanna og er með bestu hlutfallsmarkvörsluna í deildinni (40,6 prósent). Stefán fékk fullt hús í kosningu sérfræðinga Seinni bylgjunnar á mesta leikmanni fyrri hluta tímabilsins.

„Hann er búinn að vera algjörlega frábær. Það má alveg koma fram að Grótta er búin að spila rosalega vel en það er kannski auðveldara að vera með þessa prósentu þegar þú ert fyrir aftan vörnina hjá Haukum og Selfossi eða þessum toppliðum þar sem þú færð betri blokkir. Hann er með svo mikið af góðum vörslum,“ sagði Bjarni Fritzson í Seinni bylgjunni í gær.

Stefán var að sjálfsögðu í úrvalsliði fyrri hlutans. Auk Gróttu áttu fimm lið fulltrúa í úrvalsliðinu. Hægri vængurinn í því kemur úr KA sem er eina liðið sem á fleiri en einn fulltrúa í úrvalsliðinu. Árni Bragi Eyjólfsson er í hægra horninu og Áki Egilsnes í stöðu hægri skyttu.

Ásbjörn Friðriksson, FH, er leikstjórnandi, Stjörnumaðurinn Tandri Már Konráðsson vinstri skytta, Orri Freyr Þorkelsson úr Haukum í vinstra horninu og Eyjamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson á línunni. Aron Kristjánsson, Haukum, var valinn besti þjálfari fyrri hlutans.

FH-ingurinn Ágúst Birgisson var valinn besti varnarmaður fyrri hluta tímabilsins. 

„Hann er búinn að stjórna FH-vörninni með Ísak [Rafnssyni]. Þeir eru hrikalega flottir saman og tengja vel saman,“ sagði Einar Andri Einarsson um Ágúst.

Klippa: Seinni bylgjan - Úrvalslið fyrri hluta tímabilsins

Tengdar fréttir

„Hann bombaði þennan leik og var algjörlega frábær“

Stjarnan í sigri Valsmanna á FH-ingum í Olís deildinni í gær var mjög efnilegur leikmaður sem hefur ekki fengið alveg að njóta sín hjá Val í vetur. Hann greip aftur á móti tækifærið með báðum höndum þegar hann fékk það í stórleiknum á Hlíðarenda í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×