Stöðufundur fór fram í morgun með fulltrúum lögreglu, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sveitarfélagsins Múlaþings, heimastjórnar á Seyðisfirði, Veðurstofu Íslands og fleirum.
„Tvær vélar eru notaðar við að móta setþró innan varnargarða ofan við Slippinn. Við Nautaklauf var verið að ganga frá grjóthleðslum í farveginum og ganga frá endum efst á varnargarðinum. Verið er að vinna að undirbúningi aðgerða við vatnsfarveg yfir Fossgötu. Hönnun og undirbúningur er enn í gangi fyrir nýja veituþverun á Búðará, en þar er flækjustigið nokkuð vegna umfangs á lögnum,“ segir í færslunni.
Á stöðufundinum í morgun var farið yfir stöðuna í hreinsunarstarfi og önnur gögn á borð við bráðabirgðahættumat, líkanreikninga, vöktunarmæla og rýmingarkort. Að undanförnu hefur verið unnið að líkansreikningum á skriðum sem hugsanlega gætu fallið úr þelaurðinni undir Strandartindi og eru þeir reikningar á lokastigi.
Þá hafa verið fest kaup á sex sjálfvirkum GPS stöðvum til viðbótar við þrjár sem fyrir voru. „Þegar þeim hefur verið komið upp verður staðan betri fyrir vöktun á meðan úrkoma gengur yfir og mælingar með alstöð verða torveldari sökum lélegs skyggnis. Einnig er unnið að því að streyma gögnum fyrir vaktina á eina síðu þar sem vaktin getur fylgst með öllum mælitækjum á einum stað.
Unnið er að hönnun og útgáfu á skiltum til dreifingar á Seyðisfirði með ráðum til íbúa um það hvað hafa skuli í huga komi til rýmingar. Þá er rýmingarkort í vinnslu,“ segir ennfremur í færslunni.