FH átti ekki í miklum vandræðum þegar Þórsarar kíktu í heimsókn. Einar Örn Harðarson og Matthías Vilhjálmsson sáu um markaskorun heimamanna í fyrri hálfleik, en Þórir Jóhann Helgason og Vuk Oskar Dimitrijevic skoruðu sitt markið hvor í þeim seinni.
FH situr í þriðja sæti riðilsins með sjö stig, en Þórsarar eru enn stigalausir á botninum.
KA átti svo ekki í vandræðum með Aftureldingu þegar liðin mættust á Fagverksvellinum í dag. Staðan var 0-2 í hálfleik, þar sem Brynjar Ingi Bjarnason og Jonathan Kevin C. Hendrickx sáu um markaskorunina.
Seinni hálfleikur var algjör einstefna. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði á 67.mínútu, áður en Daníel Hafsteinsson skoraði tvö mörk með stuttu millibili. Valgeir Árni Svansson klóraði í bakkann á 80.mínútu, en skaðinn var skeður. Brynjar Ingi bætti svo við sínu öðru marki á 85.mínútu og Steinþór Freyr Þorsteinsson innsiglaði svo 1-7 sigur undir lokin.
KA er í öðru sæti riðilsins með níu stig, en Afturelding situr í því fjórða með þrjú stig.