Erlent

39 látnir eftir að bátar sukku undan ströndum Túnis

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Þúsundir hafa látið lífið á síðustu árum við það að reyna að komast frá norðurströnd Afríku og til Evrópu.
Þúsundir hafa látið lífið á síðustu árum við það að reyna að komast frá norðurströnd Afríku og til Evrópu. Getty

Að minnsta kosti 39 eru látnir eftir að tveir bátar hlaðnir farandfólki sukku undan ströndum Túnis í gær. Fólkið var að freista þess að komast yfir Miðjarðarhafið til ítölsku eyjunnar Lampedusa, að sögn varnarmálaráðuneytis Túnis.

Landhelgisgæsla landsins kom 165 manns til bjargar og enn er verið að leita að eftirlifendum á svæðinu. Fólkið kom allt frá löndum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar, að því er fram kemur í frétt Reuters.

Strandlengja Túnis er nú orðin ein af miðstöðvum þeirra sem sigla með fólk í leit að betra lífi yfir til Evrópu frá Afríku. Á síðasta ári fimmfaldaðist fjöldi þeirra sem fóru frá Túnis til Evrópu og á því ári komust um 13 þúsund manns þá leiðina til Evrópu.

Þá hefur fjölgað mjög í hópi þeirra sem í raun og veru eru frá Túnis, en efnahagserfiðleikar hafa leikið landið grátt undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×