Stuðningur við bæði Sjálfstæðisflokkinn og ríkisstjórnin hefur dregist saman um í kringum eitt prósentustig frá því í könnun MMR í febrúar.
Stærsta sveiflan frá síðustu könnun er á fylgi Vinstri grænna, eða um tæplega tvö prósentustig. Flokkurinn mælist nú með 11,7 prósent fylgi. Þriðji stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, mælist með 12,7 prósent, rúmu prósentustigi meira en í febrúar.
Athygli vekur að stuðningur við ríkisstjórnina mælist umtalsvert meiri en fylgi stjórnarflokkanna þriggja samanlagt. Hver í sínu lagi njóta flokkarnir stuðnings 45,4 prósent svarenda í könnuninni, 8,3 prósentustigum minna en lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórnina sem þeir mynda saman.
Af stjórnarandstöðuflokkunum mælist Samfylkingin stærst með 13,8 prósent, tæpu prósentustigi meira en í síðustu könnun. Fylgi Miðflokksins eykst um rúmt prósentustig og er nú 9,3 prósent. Flokkur fólksins bætir við sig einu og hálfu prósentustigi og mælist með 5,1 prósent fylgi.
Stuðiningur við Pírata og Viðreisn breytist inn minna en hinna flokkanna. Píratar mælast nú með 11,5 prósent en voru með 11,4 í desember og Viðreisn nýtur stuðnings tíu prósent svarenda nú en 10,6 prósent síðast.
Sósíalistaflokkurinn mælist með 3,8 prósent, nokkru minni en í síðustu könnun þegar stuðningur við flokkinn var 4,1 prósent. Flokkurinn á ekki fulltrúa á Alþingi. Stuðningur við aðra flokka mældist innan við eitt prósent samanlagt.
Könnunin var framkvæmd 5. - 10. mars 2021 og var heildarfjöldi svarenda 951 einstaklingur, 18 ára og eldri.