Innlent

Fer á milli hesthúsa og skiptir faxi á hestum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Aníta Rós Kristjánsdóttir, sem hefur meira en nóg að gera að fara á milli hesthúsa og skipta faxi á hestum. Hér er hún að vinna í hesthúsinu í Austurási í Árborg við að skipta faxinu á merinni Kröflu.
Aníta Rós Kristjánsdóttir, sem hefur meira en nóg að gera að fara á milli hesthúsa og skipta faxi á hestum. Hér er hún að vinna í hesthúsinu í Austurási í Árborg við að skipta faxinu á merinni Kröflu. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sautján ára stelpa í Mosfellsbænum hefur meira en nóg að gera að fara á milli hesthúsa og skipta faxi á hestum. Hún segir að hestunum líki mjög vel við slíkt dekur en það tekur hana um fjörutíu og fimm mínútur að skipta faxinu með tilheyrandi föndri.

Aníta Rós Kristjánsdóttir fer ekki bara í hesthús á höfuðborgarsvæðinu því hún fer líka á Suðurland og í Borgarfjörð. Hér er hún mætt í fax skiptinu í hesthúsinu í Austurási í Árborg til að skipta faxinu á merinni Kröflu, sem er drottningin í hesthúsinu.

„Þetta er sem sagt bæði mjög fallegt, þetta felur list í sér. Þetta er róandi fyrir hestinn og hesturinn finnur alveg vel fyrir því þegar þunginn á faxinu jafnast. Ef hestar eru með mjög mikið fax þá er faxið kannski bara öðru megin, þá er alltaf meiri þungi þar. Svo náttúrulega þegar þú skiptir faxinu þá jafnast þessi þungi og hestinum líður bara miklu betur í líkamanum sínum“, segir Aníta Rós.

Það er augljóst að hestunum líður mjög vel þegar Aníta Rós er að skipta faxinu.

„Já, þeir róast mjög mikið við þetta, þetta er eins og gott nudd fyrir þá. Mannfólkið þekki þetta, ef einhver er að nudda þig eða fikta í hárinu á þér, þá finnst manni það ógeðslega þægilegt, þeim finnst það líka.“

Aníta Rós segir að skiptingin haldi sér í fjórar til sex vikur. En hvernig er að vera atvinnumaður í þessu faxi, hestafaxskiptinga stelpa?

„Þetta er bara mjög skemmtilegt, maður hittir alltaf eitthvað nýtt fólk og nýja hesta og er í nýju umhverfi á hverjum degi. Mér finnst alltaf skemmtilegt að kynnast nýju fólki, ég er ekkert að kvarta yfir þessu,“ segir Aníta Rós hlægjandi.

Handverkið er fallegt hjá Anítu Rós en skiptingin heldur sér yfirleitt í fjórar til sex vikur.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×