Þetta staðfestir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við fréttastofu. Fyrr í dag var greint frá því að yfir fimmtíu starfsmenn Landspítalans verði sendir í sóttkví og skimun vegna umrædds smits.
Milli þrjátíu og fjörutíu starfsmenn í sóttkví
Konan sem greindist í gær var starfsmaður ION hótela á Nesjavöllum. Hún hafði ekki verið við vinnu frá því í byrjun mars en sótti starfsmannagleði á sunnudag. Engir gestir eru því taldir vera í smithættu. Eigandi hótelsins sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að starfsmaðurinn væri einkennalítill og að engir samstarfsmenn hafi fundið fyrir einkennum.
Milli þrjátíu og fjörutíu starfsmenn hótelsins og veitingastaðanna Silfru og Sumac, sem heyra undir sama fyrirtæki, eru í sóttkví eftir starfsmannagleði síðasta sunnudag, sem umræddur starfsmaður sótti.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að ekki væri búið að rekja smitið og að tilfellið væri vísbending um að veiran væri ekki horfin úr samfélaginu. Hann sagðist vona að hópsýkingin sem kom upp fyrir tveimur vikum væri yfirstaðin en tók fram að ekki væri hægt að útiloka eitthvað samfélagslegt smit út frá tilfellinu sem greindist í gær. Ástæða væri til að hafa áhyggjur af smitinu.
Fréttin hefur verið uppfærð.