Handbolti

Endurtaka þarf leik Stjörnunnar og KA/Þórs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjörnufólki varð að ósk sinni.
Stjörnufólki varð að ósk sinni. vísir/hulda margrét

Samkvæmt heimildum Vísis hefur Áfrýjunardómstóll HSÍ ógilt úrslit Stjörnunnar og KA/Þórs og komist að þeirri niðurstöðu að endurtaka þurfi leikinn.

KA/Þór vann leik liðanna í Olís-deild kvenna 13. febrúar, 26-27, en eitt marka liðsins var ofskráð vegna mistaka á ritaraborði.

Tólfta mark Stjörnunnar var fyrst um sinn skráð á KA/Þór og staðan því 11-18 á þeim tímapunkti en þegar þau mistök uppgötvuðust var stöðunni breytt í 12-18 í stað 12-17 eins og staðan átti að vera.

Stjarnan kærði framkvæmd leiksins og krafðist þess að úrslitunum yrði breytt í 26-26 eða til vara að leikurinn yrði endurtekinn.

Dómstóll HSÍ staðfesti úrslit leiksins en viðurkenndi að mistök hefðu átt sér stað við skráningu marka. Áfrýjunardómstóll HSÍ hefur nú snúið þeim dómi við.

Síðasta sambærilega dæmið um að úrslit hafi verið kærð vegna rangrar skráningar marka er frá 2007 en þá stóðu úrslitin. Um var að ræða úrslitaleik Fram og Hauka í deildabikar HSÍ. Fram vann leikinn, 30-28, en mark var tvískráð á liðið í upphafi leiks.

Dómur Áfrýjunardómstóls HSÍ hefur ekki enn verið birtur á heimasíðu Handknattleikssambandsins.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×