„Leit var í startholunum. Það var búið að kalla til fleiri hópa úr Reykjavík og fólkið sem er á svæðinu, það var búið að senda það af stað,“ segir Davíð Már í samtali við Vísi.
Mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína í átt að Geldingadal í því skyni að sjá eldgosið berum augum. Davíð segir björgunarsveitarfólk því í raun vera í samfelldu útkalli þar sem það er með viðveru á svæðinu ef fólk lendir í vandræðum og þarf aðstoð.
„Björgunarsveitafólkið er bara búið að vera að bæta í. Það eru vaktaskipti núna eftir daginn og það er verið að kalla út fleira fólk til þess að vera til staðar í kvöld og í nótt. Veðrið er að versna og við viljum hafa nægan mannskap til að aðstoða fólk ef það lendir í vandræðum.“
Dæmi um að fólk vanmeti gönguleiðina
Að sögn Davíðs hefur dagurinn gengið vel fyrir sig þó einhverjar tilkynningar hafi borist um fólk í vanda. Það sé aðallega fólk sem hafi orðið örmagna á gönguleiðinni eða þurfi aðstoð vegna meiðsla.
„Það var einhver sem meiddi sig eitthvað á fæti og það var náð í hann og honum skutlað í sjúkrahús. Aðallega er þetta fólk sem er örmagna, illa búið, ekki með nesti eða vanmat að einhverju leyti tímann sem fer í að fara þarna og skoða gosstöðvarnar.“
Hann segir björgunarsveitafólk tilbúið til að aðstoða þá sem ætli sér að ganga að gosstöðvunum í nótt, enda fari aðstæður versnandi eftir því sem líður á kvöldið.
„Veðrið er að versna og það dimmir núna. Það á að fjölga í mannskapnum til að hafa fólk á þessum helstu leiðum, svo hægt sé að aðstoða fólk í myrkrinu.“