Þráinn Vigfússon framkvæmdastjóri Vita ræddi stöðuna á utanlandsferðum, einkum nú yfir páskana, í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hann sagði að farnar væru þrjár ferðir út í sólina hjá Vita nú um páskana; tvær ferðir til Tenerife og ein til Alicante. Fyrri flugvélin til Tenerife fór í loftið í morgun en hinar tvær fara á morgun.
Þráinn sagði þetta um fimmfalt færri ferðir en farnar voru yfir páskana fyrir tveimur árum. Þá hefði lítið verið um afbókanir eftir að hertar samkomutakmarkanir tóku gildi hér á landi í vikunni.
„Þær eru vel bókaðar [flugvélarnar] sem eru að fara í loftið. Þannig að þetta er bæði að afbókast og bókast aftur. Við erum með biðlista og töluvert af fólki sem er á honum ef það dettur eitthvað út,“ sagði Þráinn.
Inntur eftir því hvort Íslendingar sem koma til dæmis til Tenerife nú um páskana þurfi að fara í sóttkví við komuna sagði Þráinn að þeir væru aðeins skyldaðir til að sýna neikvæða niðurstöðu úr Covid-prófi. Þá þyrfti vissulega að fara aftur í sýnatöku úti áður en haldið er heim – og á Íslandi tekur við tvöföld skimun með sóttkví á milli.
Þá kvað Þráinn mikinn áhuga meðal Íslendinga á utanlandsferðum síðsumars og í haust. Bókanir hrönnuðust nú inn, einkum til Tenerife og annarra staða á Spáni.
„En fólk er að bíða eftir að sjá hvernig bólusetningum vindur fram og líka ástandið í löndunum í kringum okkur.“