Þetta var ákveðið á nýafstöðnum fundi hjá lögreglunni á Suðurnesjum í morgun. Í tilkynningu kemur fram að veður á svæðinu sé þeim hætti að strekkingsvindur sé af norðri og flughált á gönguleiðum að gosstöðvunum.
„Fólki er sem hyggst fara að gosstöðvunum í dag, er eindregið ráðlagt að búa sig vel og hafa brodda meðferðis,“ segir í tilkynningunni.
Viðbragðsaðilar á leið á staðinn
Gunnar Schram hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir í samtali við fréttastofu að viðbragðsaðilar og björgunarsveitarmenn séu nú á leiðinni á staðinn og svo verði opnað fyrir almenna umferð klukkan 10.
Hann segir stöðuna vera ágæta.

„Við tókum í notkun bílastæði milli Ísólfsskála og Festarfjalls í gær og það virkaði mjög vel. Við teljum að við höfum náð milli 600 og 700 bílum inn á það stæði. Svo fylltist það þegar leið á daginn, enda blíðskaparveður og fólk dreif að. Þó ég geti ekki ætla fjölda sem var á gosstöðvinum í gær þá voru það allmargar þúsundir. Svo fylltust þessi stæði og þá lokuðum við Suðurstrandarvegi og stýrðum umferðinni eftir því sem losnaði á svæðinu. Við töldum inn og út eins og þeir gera í Covid-ástandinu í verslunum. Sama fyrirkomulag, og það gekk býsna vel.“
Gunnar segir að á fundi í morgun hafi verið ákveðið að opna aftur klukkan 10. Hann segir flughált vera á þeim tveimur gönguleiðum sem hefur verið notast við.
„Sérstaklega í brekkunum. Að mínu viti er hreint broddafærði þrátt fyrir kaðla sem fólk getur notað til handstyrkingar. Þeir sem halda þarna uppeftir ættu að setja brodda í bakpokann og búa sig undir hálku upp brekkuna. Síðan er norðanstrekkingur þarna í dag, hryssingslegt og frekar óspennandi. En það ætti ekki að hindra vel útbúnu fólki að halda á staðinn,“ segir Gunnar.
Heldur sínu striki
Salóme Jórunn Bernharðsdóttir hjá Veðurstofu Íslands sagði í samtali við Vísi í morgun að gosið í Geldingadölum hafi haldið sínu striki og litlar breytingar orðið á gosstöðvunum í nótt.

Gasspá fyrir daginn dag sé nokkuð góð þar sem mökkinn mun leggja suður af gosstöðvunum.