Innlent

Sunnudagurinn var metdagur og helmingi færri fóru í gær

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjölmargir hafa lagt leið sína í Geldingadali undanfarna daga.
Fjölmargir hafa lagt leið sína í Geldingadali undanfarna daga. Vísir/vilhelm

Um 18400 manns hafa sótt gosstöðvarnar heim frá því að Ferðamálastofa setti upp teljara sinn á gönguleiðinni inni í Geldingadal á miðvikudag. Þetta segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í samtali við Vísi.

Hann segir metdag hafa verið á sunnudaginn þegar um 5600 manns hafi gengið inn í Geldingadali. Öllu færri fóru í gær en þá voru gestir um 2600. Teljarinn telur aðeins þá sem ganga hefðbundna gönguleið inn í dalinn. 

Gestir í þyrlum og þeir sem koma Krýsuvíkurmegin að gosinu teljast ekki með. En það fólk er í miklum minnihluta.

Reikna má með að gestir í Geldingadal í heildina séu töluvert fleiri enda byrjaði að gjósa í Geldingadölum föstudagskvöldið 19. mars og teljarinn ekki settur upp fyrr en miðvikudaginn 24. mars.

Von er á margmenni á gosstöðvarnar í dag enda veðurspá góð. Bílaröð var þegar farin að myndast í morgun en opnað var fyrir umferð um Suðurstrandarveg klukkan níu í morgun. Nú eiga allir að leggja í til þess gerð bílastæði á svæðinu en áður hafði fólk lagt úti í vegakant.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×