Körfubolti

Joonas dæmdur í eins leiks bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joonas er hér í baráttunni gegn ÍR.
Joonas er hér í baráttunni gegn ÍR. Vísir/Hulda Margrét

Joonas Järveläinen, Eistlendingurinn í liði Grindavíkur, hefur verið dæmdur í eins leiks bann eftir atvik sem átti sér stað er Grindavík mætti Keflavík í Dominos-deildinni í körfubolta þann 22. mars síðastliðinn.

Joonas Järveläinen lenti þá upp á kant við Dominykas Mikla í liði Keflavíkur sem endaði með því að Joonas var rekinn úr húsi. Leiknum lauk með stórsigri Keflavíkur, lokatölur 115-82. Í gær staðfesti Körfuknattleikssamband Íslands að leikmaðurinn hefði verið dæmdur í eins leiks bann vegna hegðunar sinnar í leiknum.

Joonas hefur leikið vel með Grindavík það sem af er leiktíð. Hann er með 17.4 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka 5.9 fráköst og gefa 2.3 stoðsendingar.

Grindavík er sem stendur eitt þriggja liða með 16 stig í Dominos-deildinni. Þór Akureyri og Valur eru einnig með 16 stig. 

Grindavík á að mæta Tindastól þann 8. apríl en reikna má með því að leiknum verði frestað þar sem íþróttir eru ekki leyfðar um þessar mundir á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×