„Á meðan ríkt hefur víðtæk samstaða meðal landsmanna um nauðsynlegar sóttvarnir hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins hamast gegn sóttvarnareglum og ráðherrar flokksins brotið þær. Sundurlyndi og ábyrgðarleysi þingmanna Sjálfstæðisflokksins má ekki standa sóttvörnum í landinu fyrir þrifum,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu. Forseti þess er Ragna Sigurðardóttir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lýsti yfir áhyggjum af sóttvörnum á landamærunum í gær, eftir að héraðsdómur skar úr um að skylda til dvalar á sóttkvíarhóteli væri ólögmæt. Sá úrskurður var kærður og heilbrigðisráðherra hefur gefið út að á meðan úrskurðar Landsréttar er beðið, verði ekki ráðist í nýja lagasetningu.
Hringl og flumbrugangur
Ungir jafnaðarmenn eru harðorðir um stjórnarhætti ríkisstjórnarinnar í málinu.
„Undanfarin misseri hafa vinnubrögð ríkisstjórnarinnar einkennst af hringli, flumbrugangi og samráðsleysi við sóttvarnayfirvöld. Þetta hefur sett sóttvarnir í uppnám og grafið undan sátt og samstöðu í samfélaginu.
Alvarlegasta dæmið er nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um ólögmæta skyldudvöl í sóttvarnahúsi. Dómurinn og afleiðingar hans skrifast alfarið á ríkisstjórnina, ráðherra heilbrigðismála og tregðu stjórnarmeirihlutans á Alþingi til að axla pólitíska ábyrgð á sóttvarnaráðstöfunum og binda nauðsynlegar valdheimildir í lög þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar stjórnarandstöðu,“ segir í yfirlýsingunni.