Golf

Woods var á tvö­földum há­marks­hraða þegar hann ók út af

Kjartan Kjartansson skrifar
Flakið af bíl Tiger Woods eftir slysið. Hann ók út af veginum, rakst á tré og fór margar veltur.
Flakið af bíl Tiger Woods eftir slysið. Hann ók út af veginum, rakst á tré og fór margar veltur. AP/Ringo H.W. Chiu

Tiger Woods, fyrrverandi besti kylfingur heims, ók á tæplega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða þegar hann fór út af veginum og valt í Kaliforníu í febrúar. Lögreglustjórinn í Los Angeles-sýslu segir þó ekkert benda til þess að Woods hafi verið undir áhrifum áfengis eða lyfja þegar slysið varð.

Bíll Woods var á 135-140 kílómetra hraða á klukkustund þegar hann ók út af veginum. Hámarkshraði á slysstaðnum er rúmir 72 kílómetrar á klukkustund (45 mílur á klukkustund), að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Lögreglustjórinn segir hraðaksturinn meginorsök slyssins. Woods hafi ekið of hratt miðað við aðstæður.

Aksturstölva bílsins sýndi að Woods snerti aldrei bremsuna áður en hann ók út af veginum. Lögreglustjórinn segir að það kunni að benda til þess að kylfingurinn hafi stigið á rangan fetil. Woods verður þó hvorki sektaður né kærður þar sem engin vitni urðu að óhappinu.

Woods slasaðist alvarlega í slysinu og þurftu sjúkraliðar og slökkviliðsmenn að losa hann úr flaki bifreiðarinnar. Hann var skorinn upp vegna opins beinbrots á fótlegg. Hann slasaðist einnig á fæti og ökkla.

Kylfingurinn var útskrifaður af sjúkrahúsi fyrr í þessum mánuði. Ljóst er að hann verður frá keppni í lengri tíma en ferill hans jafnvel fyrir slysið á lokametrunum vegna þrálátra bakmeiðsla Woods.

Tiger Woods var um langt skeið besti kylfingur heims. Hann hefur unnið fimmtán risamót, það síðasta árið 2019. Aðeins Jack Nicklaus hefur sigrað á fleiri risamótum í golfi en hann sigraði á átján slíkum á ferlinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×