Innlent

Gasmengun frá gosinu berst til höfuð­borgarinnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gasmengun frá eldgosinu í Fagradalsfjalli hefur borist til höfuðborgarsvæðisins.
Gasmengun frá eldgosinu í Fagradalsfjalli hefur borist til höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Vilhelm

Gasmengun frá eldgosinu í Fagradalsfjalli blæs nú yfir höfuðborgarsvæðið og flokkast loftgæði, samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar, miðlungsgóð til slæm. Loftgæðin eru hvað verst á suðausturhluta höfuðborgarsvæðisins og mælast rúm 200 míkrógrömm af brennisteinsgasi í Norðlingaholti.

Loftgæðin eru nokkuð betri á öðrum svæðum höfuðborgarsvæðisins en í Kópavogi mælist brennisteinsmengun um 150 míkrógrömm og um 180 míkrógrömm við Grensásveg. Annars staðar í borginni flokkast loftgæði sem góð eða mjög góð.

Vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir loftgæðin í borginni ekki svo slæm. Þau hafi engin áhrif á heilsu fólks þrátt fyrir aukna brennisteinsmengun.

Veðurfræðingur segir að líklegt sé að mengunin aukist á höfuðborgarsvæðinu í dag en minnki svo í nótt og færist meira í átt til Keflavíkur og Voga.

Ekki sé nauðsynlegt að fólk loki gluggum en verði mengunin meiri og nái upp í 350 míkrógrömm verða tilmæli gefin út um að viðkvæmir fari með gát.

„Það þarf að fara yfir 600 míkrógrömm svo að viðkvæmir eigi að forðast að vera utandyra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×