Handbolti

Yfir­lýsing Stjörnunnar vegna drauga­marksins: Það sem gerist inni á vellinum á að ráða úr­slitum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarnan er í 6. sæti Olís-deildar kvenna.
Stjarnan er í 6. sæti Olís-deildar kvenna. vísir/vilhelm

Handknattleiksdeild Stjörnunnar sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem farið er yfir ástæður þess að hún kærði úrslit leiksins gegn KA/Þór í Olís-deild kvenna 13. febrúar.

KA/Þór vann leikinn, 26-27, þrátt fyrir að hafa bara skorað 26 mörk í leiknum. Stjarnan kærði úrslit leiksins. Dómstóll HSÍ vísaði kröfu Stjörnunnar frá en áfrýjunardómstóll HSÍ dæmdi félaginu í hag og komst að þeirri niðurstöðu að endurtaka þyrfti leikinn, KA/Þór til lítillar gleði.

Málið er enn fyrir dómstólum HSÍ og niðurstöðu í því er að vænta seinna í vikunni að því er kemur fram í yfirlýsingu Stjörnunnar.

Þar fer Stjarnan nánar yfir það af hverju sú ákvörðun að kæra úrslit leiksins hafi verið tekin. Aðalástæðan sé sú að það sem gerist inni á vellinum eigi að ráða úrslitum, ekki það sem er skráð á leikskýrslu, sé það ekki í samræmi við það sem raunverulega gerðist.

„Ef leikskýrsla ræður meira um úrslit leikja en það sem raunverulega gerist á vellinum er grundvallaratriðum íþróttarinnar kastað á glæ. Slíkt er íþróttinni hættulegt og bíður upp á hættu að upplýsingar séu ranglega skráðar á skýrslu með vísvitandi hætti til að hafa áhrif á úrslit leikja,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjarnan segir einnig rangt að félagið hafi kært sjálft sig enda sé litið á starfsfólk ritaraborð sem fulltrúa HSÍ en ekki heimaliðsins.

Úrslit umrædds leiks gætu haft mikil áhrif á lokaniðurstöðu Olís-deildar kvenna. KA/Þór er með eins stigs forskot á toppi deildarinnar en Stjarnan í 6. sætinu. Tveimur umferðum er ólokið en óvíst er hvenær keppni í deildinni hefst á ný.

Tilkynning Stjörnunnar

Huldumark í TM höllinni – um hvað er deilt og hvað er Stjarnan að kæra?!

Við hjá handknattleiksdeild Stjörnunnar höfum fengið ýmsar fyrirspurnir vegna atviks sem átti sér stað í leik Stjörnunnar og KA/Þór í Olísdeild kvenna þann 13. febrúar sl. í TM höllinni í Garðabæ.

Samkvæmt upptökum og öðrum gögnum frá umræddum leik er það óumdeilt að bæði lið skoruðu 26 mörk með löglegum hætti í leiknum. Hins vegar voru gerð mistök á ritaraborði sem fólust í því að mark sem Stjarnan skoraði var ranglega skráð á lið KA/Þórs. Þegar dómarar fá ábendingu um að það vanti mark hjá Stjörnunni þá fara þeir fram á við ritaraborð að bæta eigi marki við hjá Stjörnunni sem var gert en markið hins vegar ekki tekið af KA/Þór.

Grundvallarástæða þess að Stjarnan kærir framkvæmd þessa leiks er að það er okkar staðfasta trú að það sem gerist inni á vellinum og þau mörk sem þar eru skoruð eru það sem eigi að ráða úrslitum leikja en ekki það sem skráð er á leikskýrslu ef það er ekki í samræmi við það sem raunverulega gerðist.

Ef leikskýrsla ræður meira um úrslit leikja en það sem raunverulega gerist á vellinum er grundvallaratriðum íþróttarinnar kastað á glæ. Slíkt er íþróttinni hættulegt og bíður upp á hættu að upplýsingar séu ranglega skráðar á skýrslu með vísvitandi hætti til að hafa áhrif á úrslit leikja.

Er Stjarnan að kæra sjálfan sig? Nei, það hefur komið skýrt fram í málflutningi fyrir dómi HSÍ að litið er á starfsfólk ritaraborðs sem fulltrúa HSÍ á leikjum en ekki fulltrúa heimaliðs. Enda þurfi þau að hafa fengið þjálfun og viðurkenningu frá HSÍ til að sinna störfum á ritaraborði og fara eftir tilmælum dómara og eða eftirlitsdómara.

Í málflutningi Kvennaráðs KA/Þórs er því m.a. haldið fram að engin leikregla hafi verið brotin í umræddum leik og því ekki tilefni til að kæra leikinn. Það er hins vegar ekki rétt, leikregla 9.1 segir skýrt til um hvernig hægt er að skora löglegt mark í handknattleik. Þar er útskýrt með nákvæmum hætti hvernig bolti þarf að fara yfir línu til þess að um löglegt mark sé að ræða. Það er algjörlega skýrt samkvæmt öllum gögnum að boltinn fór 26 sinnum yfir marklínu hjá hvoru liði í leiknum. Þegar lögleg mörk er talin samkvæmt upptökum þá fór leikurinn jafntefli 26 – 26.

Til skýringa má nefna það að skráning marka er skv. leikreglum á ábyrgð dómara en eftir að farið var að taka hraða miðju þá færðist sú ábyrgð í raun og veru á ritaraborð án þess að reglunum hafi verið breytt í samræmi við raunverulega framkvæmd. Það er okkar mat að nauðsynlegt uppfærsla á reglum HSÍ sé aðkallandi og gerðar séu ráðstafanir til þess að hægt sé að skera úr um slík vafaatriði á staðnum í hvejum leik með því að nýta upptökur og nútímatækni auk skráning í HB stats.

Það skal tekið fram að umrætt atvik er ekki einstakt í sögu handbolta í efstu deildum þ.e. að mark sé ranglega skráð eða vanskráð á lið. En í þessu tilfelli er sennilega um að ræða eitt áhrifamesta mark í sögu íslensk kvennahandbolta og jafnvel handbolta yfir höfuð þar sem að sá möguleiki er fyrir hendi að umrætt mark skeri úr um það hvaða lið verði Olísdeildarmeistari 2021.

Stjarnan telur því mjög mikilvægt að fá skorið úr um þessi atriði með skýrum hætt og skapa umgjörð sem er skýr og til þess fallin að íþróttin fái að njóta sín með því að láta það sem raunverulega gerist á handboltavellinum ráða úrslitum.

f.h. stjórnar handknattleiksdeildar Stjörnunnar

Lárus Halldórsson varaformaður.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

„Ótrúleg vinnubrögð af hálfu HSÍ og áfrýjunardómstólsins“

Framkvæmdastjóri KA er gáttaður á úrskurði áfrýjunardómstóls HSÍ um að endurtaka eigi leik KA/Þórs og Stjörnunnar í Olís-deild kvenna. Akureyringar hafa eitt og annað við málsmeðferðina að athuga og segja að gleymst hafi að tilkynna þeim um áfrýjunina.

Endurtaka þarf leik Stjörnunnar og KA/Þórs

Samkvæmt heimildum Vísis hefur Áfrýjunardómstóll HSÍ ógilt úrslit Stjörnunnar og KA/Þórs og komist að þeirri niðurstöðu að endurtaka þurfi leikinn.

Draugamarkið í Mýrinni stendur

Úrslitin í leik Stjörnunnar og KA/Þórs í Olís-deild kvenna 13. febrúar síðastliðinn standa þrátt fyrir að eitt marka KA/Þórs hafi verið oftalið. Dómstóll HSÍ hefur úrskurðað í málinu.

Misskilningurinn í Mýrinni

Draugamarkið svokallaða í leik Stjörnunnar og KA/Þórs í Olís-deild kvenna í handbolta var að sjálfsögðu til umfjöllunar í Seinni bylgjunni.

Síðasta sambærilega dæmið frá 2007 og þá stóðu úrslitin

Kæra handknattleiksdeildar Stjörnunnar á úrslitum í leik gegn KA/Þór í Olís-deild kvenna á laugardaginn er komin inn á borð dómstóls HSÍ. KA/Þór vann leikinn, 26-27, en mistök á ritaraborði urðu til þess að eitt marka liðsins var oftalið. Síðasta sambærilega dæmið um að úrslit hafi verið kærð vegna rangrar skráningar marka er frá 2007.

Draugamark í Garðabæ í sigri KA/Þór

KA/Þór vann dramatískan sigur á Stjörnunni í gær. Samkvæmt heimasíðu Handknattleikssambandsins endaði leikurinn 27-26 en norðanstúlkur virðast bara hafa skorað 26 mörk í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×