Skoðun

Menntun í heima­byggð

Ingveldur Anna Sigurðardóttir skrifar

Ungt fólk flykkist frá heimahögum til þess að sækja sér framhaldsmenntun, hvort sem það er í framhaldsskóla eða háskóla. Sjálf fluttist ég að heiman sextán ára gömul til þess að sækja framhaldsskóla og seinna meir háskóla. Það nám sem varð fyrir valinu bauð ekki upp á fjarkennslu og því varð ég að flytja til Reykjavíkur.

Ef að Covid hefur kennt okkur eitthvað, þá er það að fjarkennsla er valkostur. Ég get talið þær kennslustundir sem ég hef sótt í húsakynnum háskólans þessa önnina á fingrum annarrar handar en það sama gildir ekki um fjartíma á netinu.

Fjarkennsla

Það hefur sýnt sig og sannað að fjarkennsla er raunverulegur og gerlegur valkostur. Menntastofnanir sem reknar eru af ríkinu eiga að gera ungu fólki kleift að sækja sér menntun í heimabyggð. Mikilvægt er að bjóða einstaklingum upp á þann valkost að búa í sinni heimabyggð á meðan menntun stendur. Það myndi gera fleirum kleift að sækja sér menntun og opna nýjar dyr sem gætu leitt til aukinnar verðmætasköpunar á svæðinu. Menntun á að vera valkostur fyrir alla, óháð búsetu.

Fræðslunet Suðurlands

Á Suðurlandi er starfrækt Fræðslunet. Fræðslunetið stendur fyrir skipulagningu á námskeiðum sem eru bæði eru tengd atvinnulífinu og tómstundum. Í Fræðslunetinu felast gríðarleg tækifæri að efla fjarkennsluna enn frekar með auknu úrvali námskeiða og starfrækja útibú frá háskólum. Þar geta einstaklingar setið tíma, tekið próf, unnið verkefni o.s.frv. Það á ekki að skylda einstakling til þess að rífa sig upp með rótum og flytja í annað bæjarfélag til þess að sækja sér menntun. Háskólinn á Akureyri og Bifröst hafa lagt mikið upp úr að leyfa nemendum að velja hvort þeir sæki staðnám eða fjarkennslu og hefur sú tilhögun lukkast vel. Framboð á námsgreinum er þó langmest í Háskóla Íslands og og þeir sem ætla sér að iðka þær greinar sem aðeins eru kenndar þar í staðnámi eiga líklega engra annarra kosta völ en að flytja til Reykjavíkur Það ætti að vera sjálfsagt að veita einstaklingum það frelsi til þess að stunda sitt nám að heiman.

Tækifæri í sameinuðu sveitarfélagi

Samhliða alþingiskosningum í haust kjósa íbúar fimm sveitarfélaga á Suðurlandi; Ásahrepps, Rangárþings ytra, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps um sameiningu. Ef af sameiningunni verður felast tækifæri í að efla menntun bæði á framhalds- og háskólastigi á þessu svæði.. Á Suðurlandi eru sex framhaldsskólar þó enginn á löngum kafla þ.e. frá Selfossi til Hafnar að undanskildum framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.

Unglingar og fjölskyldur þeirra eru misjafnlega búnar til að standa undir fjárhagslegum og félagslegum áskorunum sem felast í flutningum að heiman. Því liggja tækifæri í því að setja á laggirnar framhaldsskóla í kjördæminu sem myndi gera einstaklingum kleift að sækja sér menntun til iðnprófs eða stúdentsprófs í heimabyggð.

Einstaklingum á landsbyggðinni á að standa til boða að sækja sér menntun í heimabyggð.

Höfundur er frambjóðandi í 4. - 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi.




Skoðun

Sjá meira


×