Innlent

Ekki borga!: Lögregla varar við fjárkúgunartilraunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjárkúgunartilraunirnar hafa átt sér stað í gegnum samskiptamiðilinn Google Hangouts.
Fjárkúgunartilraunirnar hafa átt sér stað í gegnum samskiptamiðilinn Google Hangouts.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa upp á síðkastið verið að berast tilkynningar um fjárgkúgunartilraunir tengdar kynferðislegum myndsamtölum á netinu.

„Karlmenn hafa fengið skilaboð frá erlendri konu á Instagram og þeir beðnir um að setja upp Google Hangouts spjallforrit til að ræða við konuna. Spjallið verður mjög fljótt kynferðislegt. 

Þegar líður á spjallið og maðurinn hefur berað sig fyrir myndavélinni er upptaka af honum sýnd í spjallglugganum þar sem konan var áður. Í kjölfarið er maðurinn krafinn um greiðslu, annars verði myndbandið sent á Facebook og Instagram vinalistana,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Lögregla hvetur þá sem kunna að verða fyrir þessu að greiða ekki; það skili engu nema áframhaldandi kúgunum.

Hægt er að senda ábendingar um áþekk mál á póstfangið abending@lrh.is.

„Upplýsingar sem gott er að fylgi tilkynningunni eru m.a. Instagram reikningurinn sem fyrst var haft samband úr, netfangið á Google Hangouts reikningnum og upplýsingar um hvert á að greiða kúgaranum (reikningsnúmer).“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×