Fótbolti

Bayern henti frá sér tveggja marka for­ystu og tapaði sínum fyrsta leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. @FCBfrauen

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sat allan tímann á varamannabekk Bayern Munchen er liðið henti frá sér 2-0 forystu og tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu í dag.

Hoffenheim var í heimsókn hjá verðandi Þýskalandsmeisturum Bayern í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Landsliðskonan Karólína Lea sat allan tímann á varamannabekk Bæjara en heimastúlkur virtust ætla að hirða stigin þrjú er liðið komst í 2-0 á fyrstu 13. mínútu leiksins.

Staðan var 2-0 allt þangað til klukkustund var búin af leiknum. Gestirnir gerðu sér lítið fyrir og skoruðu þrjú mörk frá 63. til 73. mínútu og þó Bæjarar hafi gert hvað þær gátu til að jafna metin þá kom allt fyrir ekki og Hoffenheim vann ótrúlegan sigur.

Ef til vill hefði þjálfari Bayern betur sent íslensku landsliðskonuna inn af bekknum. Lokatölur hins vegar 3-2 og fyrsta tap liðsins í deildinni staðreynd. Bayern er nú með 51 stig að loknum 18 leikjum en Wolfsburg er í 2. sæti með 46 stig ásamt því að eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×