Tólf af stærstu félögum Evrópu tilkynntu um stofnun ofurdeildarinnar á sunnudagskvöldið. Nokkuð hefur fækkað í þessum hópi síðan þá. Á þriðjudaginn drógu öll ensku félögin sig út úr samkomulaginu og á miðvikudaginn fóru Inter, Atlético Madrid og AC Milan sömu leið.
Eftir standa Juventus, Real Madrid og Barcelona. Andrea Agnelli, forseti Juventus, sagði að ofurdeildin væri úr sögunni en forráðamenn spænsku risanna hafa ekki enn lagt árar í bát.
Vonir þeirra um að ofurdeildin verði að veruleika jukust ekki í dag þegar JP Morgan dró stuðning sinn við hana til baka.
„Við lögðum rangt mat á það hvernig þetta myndi mælast fyrir í fótboltasamfélaginu og hvaða áhrif þetta hefði til framtíðar. Við lærum af þessu,“ sagði í yfirlýsingu frá JP Morgan.
Þátttökuliðin í ofurdeildinni áttu að fá á bilinu 174 til 261 milljón punda hvert frá JP Morgan. Nú er ljóst að ekkert verður af því.