Skoðun

Þú ofvirki….hysjaðu bara upp um þig brækurnar!

Alma Björk Ástþórsdóttir skrifar

Þetta var svona nánast það sem mátti lesa út úr pistli sem Friðrik Agni skrifaði um ADHD og greiningar.

Það eiga auðvitað allir rétt á að tjá sínar skoðanir en svo búum við í samfélagi með viðkvæmum hópum og því skal aðgát höfð í nærveru sálar.

Þegar Friðrik lýsir sínum týpíska degi finnst mér næstum eins og ég sé að lesa um sjálfa mig. Vaðandi úr einu í annað og endalaust að með mörg járn í eldinum. En ég er ekki með ADHD. Ég er bara venjuleg kona, ofurkona, ofurmamma og allt það eins og við allar erum. Það er flott að fólk sé duglegt og geti státað sig af því en að bera slíkan dugnað við raskanir sem einstaklingar glíma við er siðlaust í besta falli.

Ef þú hefur ekki fengið ADHD greiningu, ef ADHD hefur ekki haft hamlandi áhrif á þitt líf, ef þú hefur ekki þurft að ala upp barn með hamlandi ADHD þá langar mig að biðja þig um að kynna þér málið ítarlega áður en þú tekur þátt í umræðunni. Þitt tjáningarfrelsi getur nefnilega haft niðurrífandi áhrif á stóran hóp viðkvæmra einstaklinga.

Og að lokum skal ég lofa þér að greining og lyfjagjöf sem drengurinn minn hefur fengið mun ekki draga neitt úr hæfni hans eða dugnaði. Þvert á móti mun slíkt auðvelda litlu ofurhetjunni minni lífið á allan hátt. Með greiningu, lyfjagjöf og skilningi í samfélaginu fær barnið mitt vonandi að blómstra eins og öll börn eiga skilið að gera!

Pistlahöfundur telur að hann muni mögulega uppskera óvinsældir vegna skrifanna. Þetta kallast innsæi og það er ágætt ráð að hlusta á slíkt. Endilega taktu þátt í umræðunni ef þú hefur áhuga á þessu málefni en fyrir alla muni …kynntu þér málefnið vel og vandlega þannig að þú sért ekki einungis að sjá þetta út frá eigin dugnaði…

Höfundur er meistaranemi við Háskóla Íslands




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×