Innlent

Rauð­agerðis­málið til héraðs­sak­sóknara

Birgir Olgeirsson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Rannsókn lögreglu á morðinu í Rauðagerði er ein sú umfangsmesta sem embættið hefur lagst í. 
Rannsókn lögreglu á morðinu í Rauðagerði er ein sú umfangsmesta sem embættið hefur lagst í.  Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur afhent embætti héraðssaksóknara gögn vegna rannsóknar Rauðagerðismálsins. Mun það falla í hlut embættisins að ákveða hvort ákærur verða gefnar út í málinu. 

Málið varðar morðið á Armando Beqirai. Hann var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði rétt fyrir miðnætti 13. febrúar síðastliðinn. Maður að nafni Angjelin Sterkaj hefur játað morðið við yfirheyrslu lögreglu en Armando var skotinn níu sinnum með 22 kalíbera skammbyssu sem búin var hljóðdeyfi. 

Samkvæmt upplýsingum frá Huldu Elsu Björgvinsdóttur, yfirmanns ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, var málið sent til héraðssaksóknara í morgun en eins og staðan er í dag eru 14 manns með stöðu sakbornings.

Lögregla hefur gefið út að hún telji málið tengjast skipulagðri glæpastarfsemi en í Kompás í dag er fjallað skipulagða glæpahópa og ógnina af þeim. 

Allt bendir til þess að skipulögð glæpastarfsemi hafi færst í vöxt á Íslandi. Þetta á ekki síst við um þá starfsemi sem erlendir glæpahópar halda uppi. Ofbeldi hefur aukist þeirra á meðal, flutt er inn og framleitt meira af fíkniefnum og þá hefur einn hópurinn svikið út á þriðja hundrað milljónir af íslensku trygginafélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×