Körfubolti

Teitur: Ekki reyna að segja mér Óli að þú æfir þetta ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson fagnar hér sigurkörfu sinni en Teitur Örlygsson trúði ekki alveg því sem Grindvíkingurinn sagði eftir leikinn.
Ólafur Ólafsson fagnar hér sigurkörfu sinni en Teitur Örlygsson trúði ekki alveg því sem Grindvíkingurinn sagði eftir leikinn. S2 Sport

Grindvíkingar tryggðu sér dramatískan sigur á KR-ingum í DHL-höllinni á sunnudagskvöldið þökk sé ótrúlegu skoti fyrirliðans Ólafs Ólafssonar frá miðju.

Domino´s Körfuboltakvöld fór yfir lokakafla leiksins en það voru sveiflur og flott tilþrif á lokakafla hans.

Það var þó þessi ótrúlega sigurkarfa Ólafs sem stóð upp úr og verður líklega talað lengi um hana í Grindavík.

Það er eitt að skora frá miðju, hvað þá þegar þú ert undir og ekki með boltann þegar 2,5 sekúndur eru til leiksloka og hvað þá þegar þú ert að spila á móti KR og það í DHL-höllinni. Geggjuð karfa, geggjaður sigur og geggjað fagn.

Teitur Örlygsson og Hermann Hauksson voru sérfræðingar í Domino´s Körfuboltakvöldinu og ræddu sigurkörfuna og lokakafla leiksins.

„Þetta var geggjað skot,“ sagði Teitur Örlygsson og hélt áfram:

„Einhvers staðar sá ég að Óli hafi verið að tala um að hann æfi þetta ekki. Við þekkjum þetta allir sem eru búnir að vera í körfubolta allt okkar líf. Léttustu strákarnir og mestu fíflin í hópnum þurfa alltaf að eyða einhverjum fimm til tíu mínútum í að skjóta frá miðju. Maður hefur fengið boltann í hausinn frá þessum strákum og svona,“ sagði Teitur.

„Óli er akkúrat týpan. Ekki reyna að segja mér Óli að þú æfir þetta ekki,“ sagði Teitur.

„Óli er sem sagt þetta fífl,“ skaut Hermann Hauksson þá inn í. „Hann er einn af þeim. Léttur náungi og skemmtilegur,“ svaraði Teitur.

Domono´s Körfuboltakvöld skoðaði síðan þessa lokasókn gaumgæfilega eins og má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Dominos Körfuboltakvöld: Lokasóknin í leik KR og Grindavík



Fleiri fréttir

Sjá meira


×