FH var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik gegn Íslandsmeisturum Vals í Kaplakrika. Hagur FH-inga vænkaðist mjög þegar Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Valsmanna, var rekinn af velli á 24. mínútu fyrir að sparka í Jónatan Inga Jónsson.
Á 38. mínútu náði FH forystunni þegar skot Harðar Inga Gunnarssonar fór af Ágústi Eðvald Hlynssyni og í netið. FH-ingar leiddu í hálfleik, 1-0.
Valsmenn létu mótlætið ekki buga sig og léku vel í seinni hálfleik. Þeir uppskáru jöfnunarmark á 70. mínútu þegar Sigurður Egill Lárusson kom boltanum í netið. Lokatölur 1-1. FH og Valur eru bæði með fjögur stig.
Eftir 2046 daga bið eftir sigri í efstu deild vann Keflavík 2-0 sigur á Stjörnunni suður með sjó.
Nýliðarnir komust yfir á 22. mínútu þegar fyrirliðinn Frans Elvarsson skoraði úr vítaspyrnu. Eftir níu mínútna leik í seinni hálfleik bætti Kian Williams við marki. Keflvíkingar unnu því 2-0 sigur og fengu sín fyrstu stig í sumar.
Stjarnan er áfram með eitt stig og er eina lið deildarinnar sem hefur ekki enn skorað. Leikurinn í gær var sá fyrsti hjá Stjörnunni eftir að Rúnar Páll Sigmundsson hætti óvænt sem þjálfari liðsins.