Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin úr stórleiknum í Kaplakrika og mörkin úr fyrsta sigri Keflvíkinga í rúmlega tvö þúsund daga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH mistókst að vinna Val þrátt fyrir að vera manni fleiri í 66 mínútur.
FH mistókst að vinna Val þrátt fyrir að vera manni fleiri í 66 mínútur. vísir/hulda margrét

Fjögur mörk voru skoruð í síðustu tveimur leikjum 2. umferðar Pepsi Max-deildar karla í gær. FH og Valur skildu jöfn, 1-1, og Keflavík vann sinn fyrsta sigur í efstu deild síðan 2015 þegar þeir unnu Stjörnuna, 2-0.

FH var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik gegn Íslandsmeisturum Vals í Kaplakrika. Hagur FH-inga vænkaðist mjög þegar Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Valsmanna, var rekinn af velli á 24. mínútu fyrir að sparka í Jónatan Inga Jónsson.

Á 38. mínútu náði FH forystunni þegar skot Harðar Inga Gunnarssonar fór af Ágústi Eðvald Hlynssyni og í netið. FH-ingar leiddu í hálfleik, 1-0.

Valsmenn létu mótlætið ekki buga sig og léku vel í seinni hálfleik. Þeir uppskáru jöfnunarmark á 70. mínútu þegar Sigurður Egill Lárusson kom boltanum í netið. Lokatölur 1-1. FH og Valur eru bæði með fjögur stig.

Eftir 2046 daga bið eftir sigri í efstu deild vann Keflavík 2-0 sigur á Stjörnunni suður með sjó.

Nýliðarnir komust yfir á 22. mínútu þegar fyrirliðinn Frans Elvarsson skoraði úr vítaspyrnu. Eftir níu mínútna leik í seinni hálfleik bætti Kian Williams við marki. Keflvíkingar unnu því 2-0 sigur og fengu sín fyrstu stig í sumar.

Stjarnan er áfram með eitt stig og er eina lið deildarinnar sem hefur ekki enn skorað. Leikurinn í gær var sá fyrsti hjá Stjörnunni eftir að Rúnar Páll Sigmundsson hætti óvænt sem þjálfari liðsins.


Tengdar fréttir

„Ömurlegur völlur og vindur“

Eftir tvö leiki í deildinni hefur Stjarnan leikið við báða nýliðana og ekki enn þá skorað mark í þessum tveimur leikjum. Daníel Laxdal var eðlilega óánægður með 2-0 tapið í Keflavík í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×