Minnst 43 Palestínumenn hafa fallið í átökum síðustu daga, þar á meðal þrettán börn. Þá hafa sex Ísraelsmenn fallið og þar á meðal sextán ára stúlka sem dó ásamt föður sínum þegar eldflaug var skotið í bíl þeirra.
Antóníó Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segist hafa miklar áhyggjur af ástandinu, samkvæmt frétt BBC. Her Ísraels segir átökin á svæðinu ekki hafa verið jafn mikil frá stíðinu 2014.
Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði í morgun að hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna muni standa yfir svo lengi sem þeirra sé þörf. Loftárásir væru bara byrjunin.
Her Ísraels hefur sent tvær herdeildir að Gasa og þykir það til marks um að mögulega sé verið að skipuleggja innrás á svæðið.
Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas, sem stjórnar Gasa, sagði í sjónvarpsávarpi að samtökin væru tilbúin til að takast frekar á við Ísraelsmenn, ef það væri vilji þeirra. Hamas væri sömuleiðis tilbúið til að stöðva átökin.
Hér má sjá myndefni frá AP fréttaveitunni sem tekið var á Gasa í morgun.
Her Ísraels hefur lagt sérstaka áherslu á að fella leiðtoga Hamas. Herinn tilkynnti í morgun að nokkrir slíkir hefðu verið felldir í árásum í morgun. Búist var við að því verði svarað með frekari eldflaugaskotum frá Gasa.
Eins og áður segir er Gasa-ströndin mjög þéttbýl. Þar búa um tvær milljónir manna og hefur svæðið verið lokað af af Ísraelsmönnum og Egyptum frá því Hamas-liðar tóku þar völd árið 2007. Ísraelsmenn hafa jafnað minnst tvö fjölbýlishús við jörðu eftir að viðvörunarskotum var fyrst skotið að húsunum.
Ísraelsmenn voru harðlega gagnrýndir fyrir sambærilegar árásir í stríðinu 2014. Þeim hefur verið lýst sem stríðsglæpum en því hafnar Ísrael.
Auk þess segir AP fréttaveitan að lögreglustöð Gasa hafi verið jöfnuð við jörðu í árásum í morgun. Sömuleiðis hafi aðrar árásir beinst gegn varðstöðvum Hamas. Blaðamaður AP sá fimm látna eftir að loftárás var gerð á bíl í borginni.
Jonathan Conricus, talsmaður hersins, segir að Ísraelsmenn reyni sitt besta til að draga úr mannfalli meðal almennra borgara.