Fótbolti

Allir markverðirnir og sextán til viðbótar smitaðir

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn River Plate ganga hnípnir af velli eftir tap gegn Boca Juniors í vítaspyrnukeppni í gær.
Leikmenn River Plate ganga hnípnir af velli eftir tap gegn Boca Juniors í vítaspyrnukeppni í gær. Getty/Mariano Gabriel Sanchez

Eitt besta knattspyrnulið Argentínu, River Plate, hefur orðið afar illa fyrir barðinu á kórónuveirunni. Alls hafa tuttugu leikmenn liðsins smitast.

River Plate á að spila gegn Santa Fe frá Kólumbíu á morgun í suðuramerísku meistaradeildinni. Allir fjórir markverðir River Plate eru hins vegar smitaðir og sextán útileikmenn. Forráðamenn félagsins vonast til þess að fá í gegn að leiknum verði frestað.

Í gær tapaði River Plate gegn Boca Juniors í bikarleik í Argentínu, eftir vítaspyrnukeppni, en í aðdraganda leiksins höfðu tíu leikmenn River Plate greinst með veiruna.

Í Suður-Ameríku má vera með allt að 50 manna leikmannahópa og hefur River Plate sótt marga leikmenn úr unglingastarfi sínu, vegna faraldursins.

Talið er að um 71.000 manns hafi látist í Argentínu vegna veirunnar frá því að faraldurinn hófst. Í landinu búa 45 milljónir manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×