Innlent

Dró sér þrjár milljónir frá hús­fé­laginu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Konan var dæmd til að endurgreiða húsfélaginu það sem hún dró til sín.
Konan var dæmd til að endurgreiða húsfélaginu það sem hún dró til sín. Vísir/Vilhelm

Kona var í gær dæmd, í Héraðsdómi Reykjavíkur, til þess að greiða húsfélaginu í Efstasundi 100 rétt rúmar 2,8 milljónir króna. Hún var ákærð fyrir að hafa, sem formaður húsfélagsins, dregið sér fé af reikningum húsfélagsins.

Konan gegndi embætti formanns húsfélagsins frá september 2017 til maí 2019 en á þeim tíma var hún einnig eini prókúruhafi húsfélagsins. Frá og með septembermánuði 2017 voru húsfélagsgjöldin hækkuð um 5.000 krónur fyrir hverja íbúð, úr 9.000 í 14.000.

Þær breytingar voru aðeins samþykktar af þremur íbúðareigendum í húsinu og var ekki boðað til húsfélagsfundar til að ræða hækkunina. Í dómi segir að óumdeilt sé að þessari hækkun hafi verið ætlað að standa straum af launagreiðslum til konunnar, sem voru 35.000 krónur á mánuði.

Áður en konan tók við formennsku húsfélagsins hafði Eignaumsjón annast reikninga félagsins og höfðu til að mynda greiðslur húsfélagsgjaldanna áður runnið inn á reikning Eignaumsjónar og þaðan inn á reikning húsfélagsins. Eftir að konan tók við störfum sagði hún upp þjónustusamningi við Eignaumsjón, og runnu greiðslur húsfélagsgjaldanna þá beint inn á annan reikning húsfélagsins og gat þannig enginn fengið yfirlit af reikningi húsfélagsins nema í gegn um konuna.

Í dómi kemur fram að konan hafi greitt sjálfri sér samtals 735 þúsund krónur í laun á þeim tæpum þremur árum sem hún var formaður húsfélagsins. Þá hafa greiðslur upp á 2.101.218 krónur verið raktar til konunnar af reikningum húsfélagsins og eiga þær greiðslur sér engar skýringar.

Konunni var bolað úr embætti í maí 2019 en var hún þá búin að kaupa þrjár íbúðir í húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×