KA hefur aðeins fengið á sig þrjú mörk í fyrstu sex leikjunum og situr í öðru sæti Pepsi Max deildarinnar.
Guðmundur Benediktsson og félagar í Pepsi Max Stúkunni ræddu Steinþór Má í gærkvöldi eftir að Steinþór Már hélt hreinu í sigri á Stjörnunni í Garðabæ.
„Maður varla trúir þessu því þessi maður var aldrei á leiðinni að fara að spila hjá KA þar til að Jajalo meiðist. Það er óhætt að segja að hann sé búinn að standa sig heldur betur vel,“ sagði Guðmundur Benediktsson
„Hann bara ver þetta allt saman. Markvarslan hans þegar Hilmar Árni á skotið er frábær markvarsla og að það er svona markvarsla sem ræður úrslitum í leikjum,“ sagði Jón Þór Hauksson.
Stefán Árni Pálsson tók viðtal við Steinþór Má eftir leik og hikaði ekki við að kalla hann Stubb sem gælunafnið hans. Stefán Árni fékk líka að vita af hverju hetja KA-manna er kallaður Stubbur.
„Það gekk flest upp hjá mér í dag og sem betur fer náðum við að skora eitt mark. Það er alltaf gaman að vinna 1-0,“ sagði Steinþór Már Auðunsson.
„Það er mjög gaman að vera að spila fyrir uppeldisfélagið sitt í efstu deild. Það var það sem maður stefndi að þegar maður var lítill og nú loksins fær maður tækifærið,“ sagði Steinþór.
„Ég bjóst alls ekki við þessu en því miður þá meiddist Jajalo. Maður fær því tækifæri til að spila og verður bara að reyna að standa sig,“ sagði Steinþór.
En af hverju er markvörður KA kallaðir Stubbur?
„Það er löng saga. Það fengu allir eitt gælunafn fyrir mörgum, mörgum árum síðan. Það sem ég var langyngstur og að spila upp fyrir mig þá fékk ég nafnið Stubbur af því að ég var stærstur. Þá áttu allir að vera með kaldhæðins gælunafn og því miður þá festist mitt,“ sagði Steinþór.
Þá má sjá allt viðtalið sem og það sem Ólafur Jóhannesson sagði um markvörð KA í myndbandinu hér fyrir neðan.