Íslenski boltinn

Davíð Þór: Áttum ekki skilið að fá stig úr þessum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH-ingar spiluðu ekki nógu vel gegn Leiknismönnum að mati Davíðs Þórs Viðarssonar, aðstoðarþjálfara liðsins.
FH-ingar spiluðu ekki nógu vel gegn Leiknismönnum að mati Davíðs Þórs Viðarssonar, aðstoðarþjálfara liðsins. vísir/hulda margrét

Davíð Þór Viðarssyni, aðstoðarþjálfara FH, var ekki skemmt eftir tapið fyrir Leikni, 2-1, í kvöld.

„Eftir níutíu mínútur áttum við ekki skilið að fá stig úr þessum leik,“ sagði Davíð í samtali við Vísi eftir leikinn.

„Við byrjuðum vel og herjuðum á þá, komumst upp kantana, fengum álitlegar sóknir og komumst yfir en fengum strax mark á okkur í bakið. Svo var seinni hálfleikurinn slakur af okkar hálfu.“

FH-ingar voru meira með boltann í leiknum en ógnuðu marki Leiknismanna ekki mikið, sérstaklega ekki í seinni hálfleik.

„Það var alltof mikið af misheppnuðum sendingum og við unnum ekki seinni boltann. Það eru kannski helst þessir tveir hlutir,“ sagði Davíð.

Skömmu eftir að Sævar Atli Magnússon kom Leiknismönnum yfir skoraði Pétur Viðarsson en markið var dæmt af.

En hvaða skýringar fengu FH-ingar á því?

„Rangstaða, að einhver hefði byrgt markverðinum þeirra sýn. Ég veit ekki meira. Ég sá þetta ekki almennilega,“ svaraði Davíð.

FH hefur nú tapað tveimur leikjum í röð og þarf að koma sér aftur á beinu brautina.

„Það sem er mikilvægast fyrir okkur að laga er að þegar þú ferð í fótboltaleik og ert að mæta liði þar sem þú ert fyrir fram talinn sterkari aðilinn þarftu að mæta til leiks og sýna dugnað og elju og hafa fyrir hlutunum. Við koðnuðum bara niður í seinni hálfleik í dag og þurfum að reyna að snúa því við,“ sagði Davíð að lokum.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×