Innlent

Guð­rún hafði betur í Suður­kjör­dæmi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir bar sigur úr býtum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. 
Guðrún Hafsteinsdóttir bar sigur úr býtum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.  Aðsend

Guðrún Hafsteinsdóttir bar sigur úr býtum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sem fór fram í gær. Lokatölur bárust upp úr miðnætti en alls greiddu 4.647 atkvæði. Af þeim voru gildir seðlar 4.533 en auðir og ógildir 114.

Guðrún mun því leiða lista flokksins í kjördæminu en hún hlaut 2.183 atkvæði. Vilhjálmur Árnason, sem sóttist eftir fyrsta sæti á listanum, hafnaði í öðru sæti með 2.651 atkvæði samanlagt í fyrsta og annað sæti.

Ásmundur Friðriksson sóttist eftir öðru sæti á listanum en hann hafnaði í því þriðja með alls 2.278 atkvæði samanlagt í fyrsta til þriðja sæti. Fjórða sætið skipar Björgvin Jóhannesson, það fimmta Ingveldur Anna Sigurðardóttir og Jarl Sigurgeirsson skipar það sjötta.

Vilhjálmur var í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum og hefur verið Alþingismaður frá árinu 2013. Ásmundur, eins og kannski flestum er kunnugt, hefur setið á þingi um árabil og var í öðru sæti á lista flokksins í síðustu kosningum.

Þá leiddi Páll Magnússon, þingmaður, listann en hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs fyrir næsta kjörtímabil. Þeir þrír voru einu þingmenn flokksins úr kjördæminu á síðasta kjörtímabili.

Niðurstöðurnar í efstu sætunum:

  1. Guðrún Hafsteinsdóttir með 2.183 atkvæði í 1. sæti
  2. Vilhjálmur Árnason með 2.651 atkvæði í 1. – 2. sæti
  3. Ásmundur Friðriksson með 2.278 atkvæði 1. – 3. sæti
  4. Björgvin Jóhannesson með 1.895 atkvæði í 1. – 4. sæti
  5. Ingveldur Anna Sigurðardóttir með 2.843 atkvæði í 1. – 5. sæti
  6. Jarl Sigurgeirsson með 2.109 atkvæði

Tengdar fréttir

Guð­rún leiðir þegar tæpur helmingur er talinn

Guð­rún Haf­steins­dóttir er efst í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í Suður­kjör­dæmi þegar tæpur helmingur atkvæða hefur verið talinn. Sitjandi þing­maður flokksins, Vil­hjálmur Árna­son, er í öðru sæti miðað við nýjustu tölur.

Sjálf­stæðis­menn velja tvo nýja odd­vita í dag

Úrslit ráðast í tveimur prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í dag, annars vegar í Suðurkjördæmi og hins vegar í Norðausturkjördæmi. Hart er barist um oddvitasætið í báðum kjördæmum þar sem fyrri oddvitar gáfu ekki kost á sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×