Til að bregðast við gróðureldaógninni hér á landi hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ákveðið að setja á laggirnar starfshóp um varnir gegn gróðureldum.
Fær hópurinn það verkefni að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum í formi forvarna og fræðslu um gróðurelda, en í hópnum eiga sæti fulltrúar meðal annars frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Félagi slökkviliðsstjóra, Lögreglustjórafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, Skógræktinni, Veðurstofunni og Verkís.
Nauðsynlegt að bregðast við
Regína Valdimarsdóttir, forstöðumaður á sviði brunavarna hjá HMS og formaður starfshópsins, segir nauðsynlegt að við Íslendingar bregðumst við þessari vá þegar í stað.
„Veðurfar hefur farið hlýnandi hér á landi og með aukinni gróðursæld að þá er þessi vá komin til að vera og við þurfum að vera í stakk búin að bregðast við.“
Starfshópurinn mun kortleggja nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum er snerta gróðurelda og stuðla að breytingum þar sem þess reynist þörf. Síðast en ekki síst muni hópurinn einbeita sér að því að auka viðbúnað slökkviliða og almennings.

Regína segir að ýmislegt sé hægt að gera til að bregðast við þessari vá.
„Við þurfum að stuðla að ákveðinni vitundarvakningu um þessa vá og að almenningur sé meðvitaður um þetta og geti brugðist við. Gróðureldar koma líka til út af mannavöldum eins og sjá má með atburði víðs vegar um landið, til dæmis í Heiðmörk og annars staðar, þetta er oft af mannavöldum, íkveikja eða einnota grill eða eitthvað, sem verður til þess að það kviknar í gróðri,“ segir Regína Valdimarsdóttir hjá HMS.