Fótbolti

Suður-Ameríkukeppnin ekki með gestgjafa þrettán dögum fyrir mót

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Argentína fær ekki að halda Suður-Ameríkukeppnina.
Argentína fær ekki að halda Suður-Ameríkukeppnina. getty/Alejo Manuel Avila

Þegar tæpar tvær vikur eru þar til Suður-Ameríkukeppnin hefst er óvíst hvar hún fer fram.

Kólumbía og Argentína áttu að halda mótið í sameiningu. Mótið var hins vegar tekið af Kólumbíu vegna mótmælaöldu sem geysaði í landinu.

Suður-Ameríkukeppnin hefur nú líka verið tekin af Argentínu vegna aukins fjölda kórónuveirusmita í landinu.

Þegar þrettán dagar eru þar til Suður-Ameríkukeppnin á að hefjast er hún án gestgjafa. Í yfirlýsingu frá Knattspyrnusambandi Suður-Ameríku segir að það sé að skoða boð frá öðrum löndum sem hafa lýst yfir áhuga á að halda mótið.

Suður-Ameríkukeppnin á að hefjast 13. júní og ljúka með úrslitaleik 10. júlí. Tíu lið taka þátt.

Suður-Ameríkukeppnin átti að fara fram í fyrra en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Brasilía á titil að verja eftir að hafa unnið keppnina fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×